Vilja að skráningu á vanskilaskrá verði hætt

06.04.2020 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr
Alþýðusamband Íslands og Neytendasamtökin krefjast þess að skráningu fólks á vanskilaskrá verði nú þegar hætt vegna greiðsluvanda sem tengist COVID-19. Samtökin vilja að enginn verði skráður á vanskilaskrá út þetta ár. Framkvæmdastjóri Creditinfo segir að það séu kröfuhafar en ekki Creditinfo sem skrái vanskil og að þeir hafi þegar kynnt úrræði til að aðstoða fólk við að takast á við vanda af völdum COVID-19.

Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands sendu í dag frá sér yfirlýsingu vegna skráninga á vanskilaskrá. Þau segja fyrirséð að fyrirtæki og einstaklingar verði fyrir skakkaföllum sem hafi keðjuverkandi áhrif og afleiðingar inn í nánustu framtíð. Samhliða því skerðist tekjur margra að miklu eða jafnvel öllu leyti. Því sé óvíst hvenær fólk fái tækifæri til að afla tekna til að standa undir skuldbindingum sínum aftur. Samtökin vísa til þess að fólk sem lendir á vanskilaskrá fái ekki greiðslukort, tryggingar eða jafnvel leiguhúsnæði. 

Samtökin krefjast þess að Creditinfo hætti tafarlaust skráningum á vanskilaskrá sína vegna greiðsluvanda sem tengist COVID-19. Þau vilja að enginn verður skráður á vanskilaskrá út þetta ár.

Kröfuhafar koma til móts við viðskiptavini

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, var nýbúin að fá yfirlýsinguna í hendur þegar fréttastofa ræddi við hana. Hún sagði að krafan virtist á misskilningi byggð þar sem það séu kröfuhafar en ekki Creditinfo sem skrái fólk á vanskilaskrá. Brynja benti á að bankar og stærri kröfuhafar hefðu þegar kynnt úrræði til að koma til móts við vanda fólks af völdum COVID-19 faraldursins og efnahagsáhrifa hans. „Það er verið að koma til móts við þetta fólk sem Alþýðusambandið og Neytendasamtökin vísa til hjá kröfuhöfum.“

Brynja nefndi sem dæmi frystingu lána auk þess kröfuhafar hefðu kynnt önnur úrræði sem gerði fólki fært að fresta greiðslum án þess að lenda á vanskilaskrá. „Ég veit ekki betur en að það séu allir að reyna að vanda sig.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi