Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Verulega hefur dregið úr loftmengun vegna COVID-19

06.04.2020 - 08:15
Mynd með færslu
 Mynd: NASA
Heimsfaraldur COVID-19 hefur víðtæk áhrif á loftslagsmálin um heim allan því dregið hefur verulega úr loftmengun vegna hans. Bara í Reyjavík hefur loftmengun minnkað um tæplega 40% vegna faraldursins eftir að samkomubann var hert hér á landi. Gera má ráð fyrir að loftmengun vegna flugumferðar hafi dregist saman um meir en níutíu prósent, segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun.

Fjallað var um tengsl milli heilbrigðismála, loftslagsbreytinga og COVID-19 í Heimskviðum. Þar var rætt við Þorstein,  Dr. Aaron Bernstein sérfræðing í heilbrigðis- og loftslagsmálum við Harvard háskóla í Bandaríkjunum og Vilhjálm Svansson, dýralækni og veirufræðing við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum.

Veira þurrkar út hagkerfi heimsins

Greta Thunberg, hin þekkta sænska baráttustúlka og barátta ungs fólks um heim allan hafa fyllt stóran hluta fréttatíma um víða veröld síðast liðið ár. En nú hefur veiran margumrædda ýtt þeim fréttum og nánast öllum öðrum út og hún hefur mjög líklega náð til Gretu og föður hennar sem þurftu að einangra sig vegna gruns um smit.

Boðað hafði verið til víðtækra mótmæla 22. apríl, á degi jarðarinnar. Ekkert verður úr þeim, eða réttara sagt þá hafa þau færst á netið. Í stað þess að þyrpast út á götur og torg verða mótmælin stafræn. On April 22, Earth Day goes Digital sendur á vefsíðu þeirra.  Greta Thunberg er hugsi yfir vírusnum.

„If one virus can wipe out the entire economy in matter of weeks and shut down societies then it is a prove that our societies are not very resilient. 

Ef einn vírus getur þurrkað út hagkerfi heimsins og lokað heilu samfélögunum þá sannar það að samfélög okkar eru ekki mjög sterk, segir hún.“ 

Dregið hefur úr umferð um tæp 40%

Fljótt á litið virðist veiran vera góð fyrir umhverfið. Samgöngur hafa dregist saman vegna veirunnar, bæði bíla- og flugumferð og þetta hefur orðið til þess að dregið hefur úr loftmengun. 

Það kemur Þorsteini Jóhannssyni, sérfræðingi í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun, ekki á óvart því dregið hefur úr loftmengun áður.  

„Þetta hefur ekki sést áður á þessum skala. Verkfræðistofan Efla var t.d. að gera greiningar á umferðinni hérna í Reykjavík og fyrstu vikuna sem við skoðuðum þá minnkaði umferðin um 23 prósent og svo eftir að samkomubannið var hert enn frekar þá hefur umferðin minnkað um 38% í Reykjavík miðað við eðlilega umferð áður. Þannig að þetta er veruleg breyting og svo sérstaklega í fluginu. Ég er svo sem ekki með tölur þar, þar er algert hrun, það er eitt til tvö flug til Íslands á dag núna sem er mjög mikil breyting. Og þetta náttúrlega dregur úr loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda, það er klárt.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV/Þór Ægisson - RUV
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Er eitthvað vitað um hvað þetta dregur mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda er hægt að geta sér til um það?

Alla vega miðað við það að umferðin hafi minnkað um næstum því 40% hérna á höfuðborgarsvæðinu má bara setja samasemmerki við það að losun gróðurhúsalofttegunda hafi líka minnkað um næstum því 40% og örugglega ennþá hærri tölur í fluginu. Ég myndi halda að lækkun í flugi til og frá Íslandi væri svona níutíu og eitthvað prósent.“ 

Þorsteinn segir að í gegnum tíðina hafi sveiflur verið í umferð yfir árið. Meiri umferð á veturna þegar skólar starfa en minni á sumrin. Þá er umferð meiri á landsbyggðinni. Svo eru líka dægursveiflur, meiri umferð á daginn og minni á nóttunni. Svona stór sveifla á heilli viku hafi ekki sést áður

Fórnarlömb loftmengunar eru andlitslaus

Ég held að það sé talað um 300 þúsund ótímabær dauðsföll í Evrópu á ári þannig að það má búast við að þegar loftmengun minnki þá séu færri ótímabær dauðsföll og minni svona heilsufarsáhrif af völdum loftmengunar. En þetta er talsvert öðruvísi vá en COVID-19.  Fórnarlömb heilsufarslegra afleiðinga loftmengunar eru alltaf andlitslaus. Þetta er alltaf bara tölfræði sem þú getur dregið úr einhverju gagnasafni. Þú getur aldrei sett nafn og andlit á andlát út af loftmengun.

Það er annað uppi á teningnum núna með COVID-19? Já það er bara skýrt hver deyr úr COVID-19 svona í flestum tilfellum og aukin dauðsföll út af loftmengun, það hefur sýnt sig að þá daga sem er mikil loftmengun deyr fleira fólk úr heilablóðföllum og hjartaáföllum en það er aldrei hægt að segja hverjir dóu þann daginn úr hjartaáfalli út af loftmengun eða hverjir hefðu dáið úr hjartaáfalli þann daginn hvort sem er. Við getum ekki sett andlit og nafn á dauðsföllin þar.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Börn veikjast vegna loftmengunar

Dr. Aaron Bernstein er bandarískur barnalæknir sem stýrir miðstöð loftslags-, heilbrigðis- og umhverfismála við Harvard-háskóla í Bandaríkjuum. Miðstöðin heitir Center for Climate, Health, and the Global Environment á ensku. Dr. Bernstein er þekktur fyrir tilraunir sínar til að vekja athygli manna á tengslum heilsu og loftslagsbreytinga. Hann var kallaður fyrir bandaríska þingnefnd fyrir tæpu ári og þar lýsti hann hvernig þetta blasir við honum.  

Þar segir hann að hann hafi meðhöndlað börn sem eru með asma og skemmd lungu vegna loftmengunar. Einnig börn með hálft andlitið lamað vegna lyme-sjúkdómsins, börn sem hafa tapað lífsviljanum vegna áfalla sem þau urðu fyrir vegna flóða og hann hefur haldið á barni sem var ekki hugað líf vegna zika-veirunnar. Það sem tengi þessa sjúkdóma saman sé notkun jarðefnaeldsneytis. 

Loftmengun og heimsfaraldur 

Rætt var við dr. Bernstein í Heimskviðum. Þar var hann spurður hvort hann telji að heimsfaraldur COVID-19 tengist loftslagsbreytingum á einhvern hátt og hann svarar að það séu tengsl en ekki bein tengsl þannig að hægt sé að segja að loftslagsbreytingar hafi komið faraldrinum af stað. Faraldurinn eigi upptök sín á markaði í Kína þar sem menn og dýr komi saman.   

En það eru ef til vill tengsl milli orska faraldursins og hvernig hann dreifist.   

„Við vitum að notkun jarðefnaeldsneytis framkallar gróðurhúsalofttegundir og það veldur einnig loftmengun,“ segir Bernstein. „Loftmengun getur gert illt verra þegar faraldurinn er annars vegar. “

Rannsóknir á faröldrum vegna annarra vírusa eins og SARS og á bakteríum og vírusum sem valda sýkingum sýna að loftmengun getur valdið því að fólk verður veikara. Það eru til fjölmargar rannsóknir sem sýna það. 

Önnur tenging sé svo eyðing skóga sem á stóran þátt í loftslagsbreytingunum. Skógeyðing hefur líka þvingað villt dýr til að flytja sig um set, finna sér nýtt heimili. Það er ástæða til að ætla að það hafi orðið til þess að ebólufaraldurinn braust út í Vestur-Afríku nýlega. Heimkynni villtra dýra hurfu vegna eyðingar skóga þar sem átti að rækta pálmaolíutré. Sama gæti hafa gerst í Kína þar hafi fólk sest að á stöðum sem áður voru heimkynni villtra dýra og öfugt. Það á ennþá eftir að rannsaka mikið hvernig þessi tengsl eru.

Mynd með færslu
 Mynd: Nature.com

Nábýli manna og dýra 

Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og sérfræðingur í dýraveirum á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, tekur undir með Dr. Bernstein. Hann segir að hnattvæðing og aukin ferðalög manna hafi áhrif á dreifingu veirunnar.   

„Það sem er náttúrlega að gerast er það að okkur er að fjölga svo mikið í heiminum, manninum, við erum orðin 7,8 milljarðar. Og þetta krefst landrýmis og athafnasemi mannsins er vel þekkt. Við sækjum inn á ný landsvæði og þrengjum að dýrum, villtum dýrum á svæðunum auk þess sem við erum náttúrlega með búfjárstofna sem stækka til þess að við getum nært okkur og við þurfum meira land undir akuryrkju. Þannig að það verður ákveðið nábýli manna og dýra. Menn komast í meiri snertingu við möguleg hættuleg smitefni eða smitefni sem geta farið yfir.“

Vilhjálmur segir að það hafi alltaf verið þekkt að veirur í dýrum færi sig yfir í fólk og það gerist miklu oftar en menn geri sér grein fyrir. Oftast skiptir það litlu máli. En nú gerist þetta með auknu nábýli manna og dýra og nánari snertingu. Mannfjölgunin og mannfjöldinn eru ákveðið vandamál.

Dautt og lifandi hvað ofaní öðru

„Við erum náttúrlega að verða búin að uppfylla jörðina. Við erum alls staðar og alls staðar með eitthvert aktívitet og komum víða við. Þessi hnattvæðing hefur gert það að verkum að þetta ferðast allt miklu hraðar. Það er bæði mikil verslun milli landa og svæða með dýr og vörur og innflutningur og dýrahald framandi tegunda. Við erum að breyta búskaparháttum og fóðrum, þetta eru alltaf að verða stærri einingar bara til að fæða mannkynið. Svo eru breytingar á neysluvenjum og matvælaframleiðslunni. Við viljum fá vörurnar hér og nú allt árið um kring og ef þær fást ekki í nágrenni okkar þá köllum við eftir þeim hinum megin af hnettinum. Og svo eru auknar kröfur um framandi kjötvörur og ferskt grænmeti og þar fram eftir götum.“ 

Markaðurinn í Wuhan, þar sem veiran er talin eiga upptök sín, er mjög stór. Þar eru meira en þúsund sölumenn með bæði kjöt og sjávarafurðir og ef marka má myndir þaðan virðist öllu ægja saman. 

„Þetta eru ábyggilega mjög ríkar hefðir þarna á bak við. Þú hefur séð myndir af þessum mörkuðum. Þetta eru lifandi dýr, villt dýr og menn. Þessu er slátrað á staðnum, mögulega til þess að hafa þetta sem ferskast. Þetta er dautt og lifandi hvað ofan í öðru og þetta eru villt dýr, veidd lifandi, færð á markaðinn, haldið í kannski nágrenni við önnur dýr sem þau að öllu jöfnu komast ekki í tæri við. Þau eru ábyggilega mjög stressuð og stress veldur ónæmisbælingu. Þannig að ef þau hýsa smitsjúkdóm eða smitefni þá fer bremsan af sem ónæmiskerfið hefur á þau og það fara að myndast stærri sýr og þá er allt í einu komin einhver tegund við hliðina á þeim sem er mótttækileg en undir venjulegum kringumstæðum mundi ekki vera í snertingu við skepnuna. 

Kórónaveirur koma úr leðurblökum

Flestar kórónuveirurnar sem finnast í mönnum nú á dögum valda vægum sýkingum, segir Vilhjálmur en MERS, SARS og SARS 2 sem núna eru í gangi séu mjög meinvirkar. 

„Menn hafa nú sagt að þetta sé  kannski  bakgrunnur allra þeirra kórónaveira sem hafa farið yfir tegundaþröskuldinn. Að uppruninn sé í leðurblökum hvort sem það eru kórónaveirur í mönnum eða húsdýrum hjá okkur.“

Tuttugu til tuttugu og fimm prósent allra spendýra séu leðurblökur. Þær séu oft í gríðarlega stórum hópum og veirur eigi gott með að aðlagast þeim.  

epa04056337 Two Grey-headed Flying-foxes (Pteropus poliocephalus) hang upside down at the Biblical Zoo in Jerusalem, Israel, 05 February 2014. Jerusalem Biblical Zoo is renowned for housing wildlife featured in the Bible.  EPA/ABIR SULTAN
 Mynd: EPA

Mikilvægt að auka vöktun

Hvað leggur Vilhjálmur til að verði gert?  

„Við þurfum að auka vöktun, auka rannsóknir og reyna að vera tilbúin undir faraldrana þegar þeir detta inn. 

Loftmengun eykst á ný

Þorsteinn gerir ráð fyrir því að loftmengun aukist á ný þegar faraldurinn er genginn yfir.

„Ég hugsa að þetta gangi nú að stóru leyti til baka mishratt t.d. umferðin hér í Reykjavík. Ég hugsa að hún fari nokkuð fljótt upp í svipað mark þegar þetta er gengið yfir. Flugsamgöngur milli landa, það verður svona lengur myndi ég halda að fara upp í sömu tölur og áður. Þetta breytir kannski eitthvað hugsunarhætti fólks bæði varðandi netverslun og heimsendingu og eins eru menn búnir að sjá að það er hægt að vera á fjarfundum og jafnvel að halda fjarfundi á milli landa og þá kannski eykst aðeins vonandi áherslan á fjarfundi og minnka ferðalög út af fundarhöldum en svona heilt séð býst ég við að þetta fari upp í sama aftur og að jafnvel einhver uppsöfnuð þörf á flutningum eða einhverjum athöfnum sem bíður núna en fer svo í gang þegar þetta er gengið yfir.“

Loftslagsbreytingar og heilbrigðismál 

Dr. Bernstein telur að fólk sé að vakna til vitundar um að loftslagsbreytingar hafi áhrif á heilsu manna í heiminum og að það hafi sannarlega með það að gera að styrkja þurfi heilbrigðiskerfi um heim allan. 

Hann hefur áður sagt að hingað til hafi verið litið á loftslagsbreytingar og stefnu ríkja í heilbrigðismálum sem ólík og aðskilin efni. Það sé ekki lengur hægt og sé hættuleg ranghugmynd. Heilsa okkar sé háð hreinu lofti og öðrum lífverum sem við deilum jörðinni með. Við verðum að sameina þetta, segir hann. 

Örlítil framför hafi orðið því farið er að skoða hvernig sýklar smitast úr dýrum í fólk en ennþá lítum við á umhverfið og lífið á jörðinni sem eitthvað tvennt aðskilið. Við getum og verðum að bæta okkur ef við ætlum að koma í veg fyrir næsta heimsfaraldur. Það þýðir að við verðum að berjast gegn loftslagsbreytingum og gera miklu meira til að tryggja margbreytileika lífsins á jörðinni, sem nú minnkar með meiri hraða en sést hefur síðan risaeðlurnar og meira en helmingur alls lífs á jörðinni dó út fyrir 65 milljónum ára. 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV