Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Verja þarf konur gegn heimilisofbeldi sem aldrei fyrr

epa07396932 United Nations (UN) Secretary-General Antonio Guterres speaks to the media, during an UN and ICRC joint statement on sexual and gender-based violence in conflict, at the European headquarters of the United Nations in Geneva, Switzerland, 25 February 2019.  EPA-EFE/SALVATORE DI NOLFI
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvetur ríkisstjórnir heims til að hafa vernd kvenna á meðal forgangsatriða í aðgerðum sínum og viðbrögðum við COVID-19 heimsfaraldrinum.

„Ofbeldi einskorðast ekki við vígvöllinn,“ segir Guterres í yfirlýsingu sinni, sem birt er á fjölda tungumála. „Fyrir fjölda kvenna og stúlkna er ógnin mest þar sem þær ættu að vera öruggastar. Inni á heimilum þeirra,“ segir Guterres.

Skelfileg aukning á heimilisofbeldi

„Á síðustu vikum, á sama tíma og efnahagsvandi, félagslegt álag og ótti hafa magnast upp, þá höfum við orðið vitni að skelfilegri aukningu á heimilisofbeldi um allan heim. Ég hvet allar ríkisstjórnir eindregið til að gera forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi á konum að grundvallaratriði í viðbrögðum ríkja sinna við COVID-19,“ segir aðalframkvæmdastjórinn.

Kallar hann meðal annars eftir því að fundnar verði leiðir sem gera konum sem beittar eru ofbeldi kleift að láta vita og leita hjálpar án þess að ofbeldismennirnir verði þess varir, til dæmis með sérstökum viðvörunarkerfum í matvöru- og lyfjaverslunum.

Verðum að stöðva ofbeldi, alstaðar

„Í sameiningu getum við og verðum að stöðva ofbeldi alstaðar, allt frá stríðssvæðum til heimila fólks, nú þegar við vinnum að því að ráða niðurlögum COVID-19,“ segir Guterres og kallar eftir „friði heima fyrir - og á heimilum - alstaðar í heiminum.“