Tíðarfarið erfitt fyrir margar tegundir farfugla

06.04.2020 - 15:20
Mynd með færslu
Þessi svartþrastaregg í hreiðri í Keflavík munu ekki klekjast út Mynd: Björn Pálsson
Hætt er við að óveðrið um helgina hafi reynst erfitt fyrir marga af þeim farfuglum sem komnir eru til landsins. Viðkvæmir spörfuglar geta drepist úr kulda og varp dregist á langinn.

Farfuglum hefur fjölgað talsvert síður tvær vikur, langmest er komið af álftum og gæsum, tjaldurinn er kominn, en almennt er minna komið af öðrum tegundum. Óveðrinu um helgina fylgdi sunnanátt og næstu daga er því von á mikilli fjölgun.

Minni áhrif vegna þess hve stórhríðin kom snemma

Flestir fuglar eru enn á sunnanverðu landinu þar sem veðrið var einna verst um helgina. „Það jákvæða í þessu er að þessi stórhríð kom tiltölulega snemma á fartímanum. Þannig að áhrifin eru minni en til dæmis ef þetta hefði gerst eftir miðjan apríl,“ segir Yann Kolbeinsson fuglafræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands.

Fuglar hverfa tímabundið af snjóþungum svæðum

Í gær sást mikið koma af skógarþröstum og hrossagaukum og þær tegundir treysta á smádýr og æti í jarðveginum og eiga því erfitt þar sem snjór er yfir öllu. „Fuglar reyna þá kannski að sækja meira í fjöru og læki og svona þar sem eru opnur,“ segir Yann. Og þeir hverfi þá kannski tímabundið af snjóþungum svæðum í leit að æti á stöðum þar sem eitthvað ætilegt er að finna. „Og koma svo strax aftur og veður skánar.“

Sjá einnig: Lóan er komin til landsins

Ekki ólíklegt að smáfuglar geti drepist

En hann segir að einhverjir fuglar geti drepist. „Já það er alls ekki ólíklegt að fuglar sem voru kannski ekki vel feitir fyrir, drepist í svona veðrum. Og þá kannski smáfuglar sem hafa átt erfitt síðustu vikur. Þannig að þegar svona kemur ofan á allt þá er það ekki að hjálpa til.“  

Varpi getur seinkað hjá einhverjum tegundum

En svona snemma í apríl séu fáar tegundir farnar að verpa. Helst svartþrestir á suðvesturhorninu og þá sé stutt í að hrafninn verpi. „Þannig að áhrifin verða ekki svo mikil ef við lítum á stóru myndina. En ekkert ólíklegt að það muni þá frestast um einhverja daga eða kannski viku hjá sumum tegundum,“ segir Yann.

Viðbúið að það verði áfram erfiðir dagar hjá fuglunum

Og hann segir að miðað við veðurspána séu ekki góðir dagar framundan hjá farfuglunum. „Það fer náttúrulega allt eftir landsvæðum og aðstæðum á hverju svæði fyrir sig. En að minnsta kosti hér norðanlands er alveg viðbúið að verði erfiðir dagar hjá þessum fuglum, því miður.“ Því sé rétt að hvetja fólk til að hjálpa fuglunum með æti á meðan tíðin er svona slæm. „Með því að henda út fæðuafgöngum og ávöxtum og svona feitum mat í garða.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi