Þórólfur: Fólk ætti ekki að fá sér tígrisdýr

06.04.2020 - 14:49
Mynd: Samsett mynd / Samsett mynd
Það gæti verið óvarlegt að fá sér tígrisdýr á tímum heimsfaraldurs kórónaveirunnar, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. Á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag var hann spurður út í sýkingu kórónaveirunnar frá mönnum í dýr og hvort fólk ætti að forðast umgang við gæludýr.

Í nótt var greint frá því að tígrisdýr í dýragarði New York hafi greinst með kórónaveiruna og talið er að það hafi smitast frá dýraverði í garðinum. Bandarísk sóttvarnayfirvöld hafa gefið út þau tilmæli til fólks að minnka samneyti við gæludýrin sín.

„Þetta hefur ekki verið sérstaklega til skoðunar hins vegar hafa menn verið að velta þessu sérstaklega fyrir sér,“ segir Þórólfur spurður hvort svipaðar aðgerðir og í Bandaríkjunum hafi komið til tals hér á landi.

„Við höfum verið í tengslum við Matvælastofnun sem sér um dýrin, og þau hafa kannað það og hvort það séu einhver rapport um að dýr hafi sýkst. Það virðist vera mjög fátítt. Svo þetta er mjög óvenjulegt.“

„Þetta kannski segir manni að maður eigi ekki að fá sér tígrisdýr á þessum tíma,“ sagði Þórólfur að lokum kíminn.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi