Snjórinn gerir fólki enn erfitt fyrir

06.04.2020 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Á Suður- og Vesturlandi fylgdi illviðri gærdagsins talsverð fannkoma. Snjóinn hefur víða tekið upp á láglendi en afleiðinga bálviðrisins sér glögg merki í Hveragerði og á Selfossi.

Kristín Sigurðardóttir fréttamaður lýsti því í hádegisfréttum að hvar sem hún liti á Selfossi væru snjóskaflar út um allt og menn að störfum á snjóruðningstækjum. 

Kristín og Guðmundur Bergkvist tökumaður voru í Hveragerði í morgun. „Við vorum á leiðinni upp í Landbúnaðarháskólann að Reykjum, í garðyrkjustöðina hjá þeim, og það var ekki auðvelt að komast þangað,“ sagði Kristín í hádegisfréttum. „Það var sama hvar við reyndum að komast, göturnar voru óruddar og fullar af snjó. Á endanum komumst við nú. Göturnar sem er búið að ryðja voru nánast einbreiðar með háum, hvítum veggjum af snjó.“

Fólk þurfti að moka sig út úr húsum í Hveragerði og á Selfossi. Það tók talsverðan tíma fyrir marga. Farið er að hlána en skaflar eru út um allt.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi