Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sex létust í sprengjuárás á kvennafangelsi

06.04.2020 - 22:30
Mynd: EPA-EFE / EPA
Tugir slösuðust, þeirra á meðal nokkur börn, í sprengjuárás á kvennafangelsi í Jemen í gær. Sex létust í árásinni.

Árásin var gerð á kvennafangelsi í Taiz, í suðvesturhluta Jemen. Sex konur létust í árásinni og á þriðja tug slösuðust. Meðal þeirra voru fjögur börn sem dvöldu hjá mæðrum sínum í fangelsinu. 

Talsmaður stjórnarhersins í Jemen segir uppreisnarmenn í Hútí-fylkingunni bera ábyrgð á sprengjuárásinni. Talsmenn fylkingarinnar hafa ekki viljað tjá sig um málið. 

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur ítrekað biðlað til stríðandi fylkinga um heim allan að slíðra vopnin, allavega um stundarsakir, á meðan heimsbyggðin öll berst við COVID-19. 

Þrátt fyrir það hefur síst dregið úr spennu milli stríðandi fylkinga í Jemen og árásin í gær ekki sú eina undanfarna daga og vikur. 

Íbúar Jemen hafa mjög margir orðið illa úti eftir áralangt borgarastríð í landinu. Það hefur geisað í á sjötta ár og á þeim tíma hafa á fjórðu milljón íbúa landsins þurft að flýja heimili sín, þar af 40 þúsund það sem af er þessu ári. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV