Róðurinn fer að þyngjast

06.04.2020 - 14:45
Alma Möller, landlæknir. - Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Sex manns hafa látist hér á landi úr COVID-19 sjúkdómnum og sagði Alma Möller, landlæknir á upplýsingafundi Almannavarna í dag, að þessi dauðsföll minni okkur á hvað veiran geti verið skæð. Tveir létust í gær úr sjúkdómnum. Landlæknir segir ljóst að róðurinn fari það þyngjast næstu daga.

„Þessi dauðsföll, þau minna okkur á hvað þessi veira getur verið skæð og um hvað þetta allt snýst í rauninni, og við höfum áður rætt um að það er umtalsverður fjöldi sem veikist alvarlega og að COVID-19 leggst þyngra á þá sem eldri eru og þar er dánartíðnin hæst og þess vegna höfum við lagt áherslu á að vernda þá sem eldri eru,“ sagði landlæknir á upplýsingafundinum. 

Gjörgæslumeðferð ein og sér ekki lækning

Enn sem komið er hefur ekki verið þróuð sértæk meðferð við sjúkdómnum en Alma sagði að ýmislegt væri til skoðunar. Gjörgæslumeðferð ein og sér væri ekki lækning. Henni sé ætlað að styðja við líffæri, með öndunarvél, öðrum tækjum og lyfjum, á meðan líkaminn vinni á veirunni. 

„Því miður þá gengur það ekki alltaf og tölur erlendis frá, þær benda á að það er töluverð dánartíðni meðal þeirra sem hafa lagst inn á gjörgæslu, en við vitum líka að heilbrigðisstarfsfólk og vísindamenn um allan heim eru að leggja kapp á að finna meðferð og fólk er stöðugt að læra.“ 

Faraldurinn tekur meira á andlega næstu vikur

Talið er að faraldurinn nái hámarki hér á landi um miðjan þennan mánuð. Alma sagði að það væri alveg ljóst að róðurinn myndi þyngjast næstu vikurnar og að fleiri eigi eftir að veikjast og látast. „Þessi faraldur mun taka sífellt meira á okkur andlega og tilfinningalega og við þurfum því að hlúa hvert að öðru og að sjálfum okkur.“

Bakverðir á leið vestur

Gripið hefur verið til hertra aðgerða til varnar útbreiðslunni á norðanverðum Vestfjörðum. Landlæknir hrósaði sérstaklega starfsfólki heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og þakkaði heilbrigðisstarfsmönnum sem hafa skráð sig á bakvarðalista. Tíu hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar af bakvarðalistanum fara með þyrlu Landhelgisgæslunnar vestur á Ísafjörð í dag. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi