Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Miðlar, skáld, dulúð og drykkjumenn í Farsóttarhúsinu

Mynd: Google / Skjáskot

Miðlar, skáld, dulúð og drykkjumenn í Farsóttarhúsinu

06.04.2020 - 12:46

Höfundar

Það er mikil mystík yfir húsinu að Þingholtsstræti 25 sem stendur autt í dag. Þar var um árabil staðsett sjúkrahús og þangað leituðu ýmsir þjóðþekktir einstaklingar sér lækningar, meðal annars við spænsku veikinni og öðrum farsóttum. Kristín Svava Tómasdóttir rannsakar Farsóttarhúsið og sögu þess.

Sjúkrahússtarfsemi af ýmsu tagi var stunduð í Farsóttarhúsinu um árabil og ef litið er þar við bakhúsmegin er enn hægt að sjá nokkuð heillegt líkhúsgólf þar sem mörg lík hafa verið krufin í gegnum árin. Kristín Svava Tómasdóttir ljóðskáld og sagnfræðingur vinnur að rannsókn þar sem hún segir frá Farsóttarhúsinu sem vettvangs sjúkdóma og lækninga í miðbæ Reykjavíkur. Yfirskrift verkefnisins er „Farsótt. Sýkingar, sóttir og lækningar í Þingholtsstræti 25.“ Kristín sagði frá rannsókn sinni í Víðsjá.

Mynd með færslu
 Mynd:
Kristín Svava Tómasdóttir skáld og sagnfræðingur

Sjúkrahús fyrir ofan vinsælan skemmtistað í miðbænum

Hún hefur komist að því eftir því sem líður á rannsóknina að saga hússins er jafnvel enn áhugaverðari en hún áður taldi. „Þetta er hús sem ég hafði aldrei tekið eftir fyrr en ég var í sagnfræðináminu. Eftir því sem ég las meira um það, því áhugaverðara þótti mér það,“ segir hún leyndardómsfull. Húsið var byggt árið 1884 og af því dregur Spítalastígur nafn sitt.

Það er byggt af félagi sem hét Sjúkrahúsfélag Reykjavíkur. Það hafði verið starfandi í tæpa tvo áratugi og rekið sjúkrahús í Kirkjustræti á efri hæðinni á aðal-djammstaðnum í bænum. Þegar það þótti ekki nógu heppilegt fyrirkomulag að sjúklingum væri hjúkrað í takt við dynjandi danstónist var ákveðið að ráðast í að byggja þetta hús sem varð aðal sjúkrahús Reykvíkinga til aldamótanna 1900, þá kom Franski spítalinn og Landakotsspítali.

Kennsla var stunduð í húsinu í upphafi 20. aldar. Þá stunduðu bæði lækna- og ljósmóðurnemar þar nám. „Eftir spænsku veikina er þetta gert að farsóttarhúsi og hlýtur þá þetta viðurnefni, Farsótt, sem það hefur síðan haldið.“ Farsóttasjúkrahús og alhliða sjúkrahús var rekið í Þingholtsstræti 25 fram á sjötta áratug síðustu aldar. Í kringum 1970 var húsinu breytt í gistiskýli Reykjavíkurborgar og því hlutverki gengdi húsið í tæpa hálfa öld.

Kristín setur sögu hússins í samhengi við íslenska heilbrigðissögu sem hún segir afar brotakennda. Saga smitsjúkdóma og sóttvarna á Íslandi sé merkileg en þar sé enn margt óskráð. Hún nefnir þó í þessu samhengi skrif Vilmundar Jónssonar landlæknis, ritgerðarsafn hans Lækningar og saga og skrif sagnfræðinganna Jóns Ólafs Ísbergs og Gunnars Þórs Bjarnasonar, sem skrifað hefur um spænsku veikina. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Svava - Einkasafn
Hér sést líkhúsgólfið glögglega

Fáar heimildir um fjölmargar konur sem tengdust húsinu

Það er ekki auðvelt að finna persónulegar frásagnir um lífið í farsóttarhúsinu, en í rannsókninni leggur hún ekki síst áherslu á manneskjulegu hlið sögunnar, kvenna- og kynjasögulegan þátt rannsóknarinnar. „Ég er búin að fara mikið í gegnum skjalasafn landlæknis og það leynast ákveðnir hlutir þar, ekki mjög mikið. Það eru auðvitað alltaf ákveðnar gloppur og skekkjur, til dæmis ein augljós, að karlarnir voru svolítið að skrifa æviminningar sínar en miklu miklu minna konurnar sem voru hérna.“

Hún nefnir tvær merkilegar konur sem tengdust sögu hússins mjög náið fyrstu áttatíu árin. „Hér var sama forstöðukonan alveg frá 1884 til 1915, það var ekki fyrr en þá sem hún flutti. Guðrún Jónsdóttir ljósmóðir bjó hér áratugum saman þannig að hún er mjög stór hluti af sögu hússins en það er alls ekkert rosalega mikið af heimildum um hana. Og í minni margra sem eldri eru í dag er kona að nafni María Bóthildur Jakobína Maack mjög tengd þessu húsi, það eru fleiri heimildir um hana, en ekkert frá hennar eigin hendi.“

Skáld og spíritistar tengjast húsinu

Margir þekktir Íslendingar tengjast með einum eða öðrum hætti sögu Farsóttarhússins. „Eitt sem ég komst að til dæmis er að Júlíana Jónsdóttir, fyrsta útgefna skáldkona okkar Íslendinga, starfaði hér sem einhvers konar ómenntuð hjúkrunarkona við umönnun áður en hún flutti vestur um haf. Ég fann til dæmis bréf frá henni. Elínborg Lárusdóttir, önnur skáldkona okkar, bjó hér um tíma áður en hún fór á Vífilsstaðahæli um 1910, og Lára miðill líka þannig að ótrúlegustu týpur hafa komið hér við.“

Gæti reist hús á gólfinu þar sem Þórður Malakoff var krufinn

Nú eru, að sögn Kristínar Svövu, uppi áætlanir um að breyta húsinu í íbúðarhús. Hún segist sjálf ekkert hafa á móti hugmyndinni um að búa sjálf í húsinu sem geymir alla þessa merku sögu. „Ég er mjög spennt fyrir að fjárfesta í íbúð í þessu húsi. Þetta er auðvitað spes, ég held það hafi fylgt byggingarréttur þar sem líkhúsgólfið sést enn. Hér sér maður enn flísarnar úr gólfinu,“ segir hún og bendir á líkhúsgólffjalirnar. „Hér gæti ég reist mitt prívat hús þar sem Þórður Malakoff var krufinn,“ segir hún glettin að lokum en eins og margir þekkja var Þórður Malakoff frægur drykkjumaður sem seldi læknastúdendum líkama sinn að sér látnum til krufningar. Um hann orti Björn M. Olsen kvæðið Loff Malakoff sem margir kyrja enn við gítarspil í vinafans þó hann Þórður gamli þrauki ei meir.

Rætt var við Kristínu Svövu Tómasdóttur í Víðsjá

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Mesti bókaþjófnaður í sögu Danmerkur ráðgáta í áratugi

Menningarefni

Viðbrögðin svipuð og við spænsku veikinni

Bókmenntir

Kristín Svava verðlaunuð fyrir Stund klámsins