Margir endurfjármagna lán vegna lægri vaxta

06.04.2020 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lágvaxtaskeið er hafið, segir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða. Vextir lækki mögulega enn frekar. Mikið er um að fólk endurfjármagni lán sín.

Seðlabankinn hefur síðustu mánuði lækkað vexti hratt og meginvextir bankans eru nú 1,75% og hafa aldrei verið lægri. Lántekendur hafa nýtt sér þetta.

„Já, það hefur verið mikil vaxtalækkun og þá hefur fólk verið að endurfjármagna óhagkvæmari lán og tekið lán að nýju með lægri vöxtum og hagkvæmari lán. Það hefur verið mikil sveifla í þá veru,“ segir Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Hún segir fólk bæði vera að endurnýja eldri lífeyrissjóðslán, en einnig að greiða upp lán annars staðar frá. Hún segir að svo virðist sem fólk sé vel vakandi fyrir breytilegum vaxtakjörum og sjái að það geti borgað sig að endurfjármagna. Þórey telur að lágir vextir séu komnir til að vera.

„Já, ég held að það megi fullyrða að við séum komin í lágvaxtaskeið, þannig að þá má alveg búast við því að, vextir hafa verið að lækka verulega, og það kann alvega að vera að þeir muni lækka enn frekar.“

Þórey segir mikilvægt að fólk kynni sér þessi mál vel og fái ráðgjöf og skoði allan kostnað í tengslum við lánabreytingar. Lífeyrissjóðirnir hafi almennt boðið upp á lægstu vextina og hún segir það ekki hafa breyst.

„Svona í heildina litið þá eru þeir með lang hagkvæmustu vextina, en þeir eru í samkeppni sín á milli og þeir eru með mismunandi vexti sínum sjóðsfélagalánum, þannig að það er bara mjög gott að fólk sé vel vakandi og horfi á vaxtaþróunina og hvernig er hagkvæmast fyrir það að fjármagna sín lán.“

Þetta þýðir, eðli málsins samkvæmt, að mikið hefur verið að gera við þinglýsingar. Þórólfur Halldórsson sýslumaður höfuðborgarsvæðisins sagði í samtali við fréttastofu meira að gera þar en búist var við, en hafi oft verið meira. Hann sé ekki með sundurliðað hvaða þinglýsingar séu vegna endurfjármögnunar. Ofan á álagið núna bætist síðan ráðstafanir sem gerðar hafa verið vegna COVID-19.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi