Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Listabransinn að frjósa þrátt fyrir streymið

Mynd: Pexels / Pexels

Listabransinn að frjósa þrátt fyrir streymið

06.04.2020 - 19:10

Höfundar

Bransinn er nánast botnfrosinn og staða sjálfstæðra listamanna þung, búið að fresta eða aflýsa öllu og það á sjálfrí árshátíðavertíðinni. Allt tónlistar- og leiklistarstreymið sem nú er boðið upp á lyftir andanum en ekki eru allir á því að það hjálpi pyngju listamanna.

Um leið og kórónuveiran fór að láta til sín taka hér á landi fór gigghagkerfinu að blæða. Það eru engar leiksýningar, engar stórar brúðkaupsveislur, engar árshátíðir, ekkert uppistand. Búið að aflýsa öllu eða fresta.  Listamenn hafa þó ekki setið aðgerðalausir, fjölmargir hafa látið sig streyma heim í stofu til fólks, áhorfendum að kostnaðarlausu. Tónleikar á hverjum degi, ljóðalestur, aríur. Nefndu það bara.  

Sækir um atvinnuleysisbætur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá tónleikunum.

Hljómsveitin Valdimar átti í lok mars tíu ára afmæli, til stóð að fagna með stórtónleikum í Eldborgarsal Hörpu en í ljósi aðstæðna var tónleikunum streymt á RÚV frá höfuðstöðvum Exton í Kópavogi. Vonir standa til þess að hægt verði að halda tónleikana fyrir fullum sal í haust. Valdimar Guðmundsson, söngvari hljómsveitarinnar, segist lítið hafa fyrir stafni þessa dagana. „Maður er bara búinn að vera, ja beisiklí bara að hanga heima.“ Hann er nú að sækja um atvinnuleysisbætur. „Bara á meðan ástandið er svona.“ 

Tónleikahald er aðal tekjulindin

Hallveig Rúnarsdóttir, söngkona, er í forsvari fyrir klassíska tónlistarmenn, formaður FÍT. Flestir í félaginu starfa sjálfstætt. Hún segir faraldurinn hafa í för með sér algert tekjutap fyrir félagsmenn. „Vegna þess að það er ekki lengur þannig að listamenn fái miklar tekjur af útgáfu heldur er eiginlega tónleikahald okkar helsta tekjulind, nú er það auðvitað bara farið á einu bretti.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hallveig Rúnarsdóttir
Hallveig Rúnarsdóttir, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna.

Sem betur fer sé flestum viðburðum frestað, þeir ekki slegnir alveg af. Hallveig segir að líklega verði algert offramboð í haust en vonandi verði gestir bara orðnir mjög þyrstir í lifandi flutning. 

Hundruð sýninga falli niður

Birna Hafstein formaður félags íslenskra leikara og sviðslistafólks segir stöðuna snúna hjá sjálfstæða geiranum, hátt í þúsund manns starfi innan sjálfstæðra sviðslista, fjöldi verkefna sem falla niður skipti tugum og sýningarnar hundruðum. Hún segir að fyrst eftir að samkomubann skall á hafi fólk reynt að halda æfingar en það hafi fjarað undan því, það sé ekki hægt við þessar aðstæður. 

Þjóðleikhúsið lætur ekki sitt eftir liggja i streyminu, daglega les einn leikari ljóð fyrir einn áhorfanda, ljóð sem áhorfandinn fær að velja. Upptökunni er streymt á vefnum. 

„Vinnustaðnum lokað og allir á götunni“

Það eru engar sýningar, engar æfingar á stórum stykkjum. Stofnanir reyna að miðla listinni og finna um leið verkefni fyrir fastráðið starfsfólk. Erling Jóhannesson, forseti Bandalags íslenskra listamanna, segir fastráðna halda sínum grunnlaunum, sá hópur sé hins vegar bara brotabrot listamanna á Íslandi. Hann hefur áhyggjur af meginþorra listamanna sem er sjálfstætt starfandi. „Ég hef lýst þessu þannig að það sé eins og stórum vinnustað sé lokað, vinnustað sjálfstætt starfandi listamanna, og daginn eftir eru bara allir á götunni,“ segir Erling. Á þessum vinnustað séu allir einyrkjar og allir að skammta sér verulega lág laun. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Erling Jóhannesson.

„Bransinn allur hann botnfrýs á svona einum til tveimur mánuðum,“ segir Erling. Um 60% af sjálfstæðum listamönnum verði innkomulaus á innan við mánuði, restin haldi í mesta lagi út í tvo eða þrjá. Þá skelli heimsfaraldurinn á á óheppilegum tíma, hann nefnir árshátíðir, danshátíðir og sýningar sjálfstæðra leikhópa sem fara í vaskinn en líka kirkjutónleika og stórar messur sem áttu að fara fram um páskana, klassíski geirinn missi þar spón úr aski sínum.

„Eins og trukkur keyri inn í líf okkar“

Sjálfstætt starfandi listamenn fá tekjur sínar af verkefnum eða giggum sem oft koma í skorpum. „Fólk hefur kannski verið að skila í svona slumpum reiknuðu endurgjaldi á skatti.“ Erling segir að tilslakanir sem þingið samþykkti á reglugerðum Vinnumálastofnunar vegna atvinnuleysisbóta hafi verið töluverðar en að þær nái illa til þessa hóps, almennt sér réttindastaða hans slæm. Flestir séu með laun langt undir viðmiðum ríkisskattstjóra, séu metnir í hlutastarfi og fái skertar bætur. Erling segir stöðu hópsins hafa verið slæma fyrir en að faraldurinn magni vandamálin upp. „Það keyrir trukkur inn í líf okkar einhvern veginn og maður er með einhver svona mál sem kannski voru í einhverjum mæli áður en nú eru þau öll uppi á borðinu og í einhverju yfirmagni. Ég held að þegar rykið sest verði þetta svolítil vinna fyrir okkur að skoða og leysa, öll þessi vinnuréttindamál listamanna.“

Bindur vonir við undirbúningsstyrki

Stjórnvöld hyggjast veita auknu fé til skapandi greina og í menntamálaráðuneytinu er samráðshópur að störfum. Hallveig hjá Félagi íslenskra tónlistarmanna segist hafa fengið veður af því að það eigi að koma aukafjárveiting úr verkefnasjóðum. „Sem eru eins og myndlistarsjóður, sviðslistasjóður, tónlistarsjóður og svo framvegis, þar sem væri kannski frekar hægt að sækja um styrk til undirbúnings eða æfinga.“ Hún vonar að þetta gangi eftir. Hingað til hafi styrkirnir verið veittir til ákveðinna verkefna.  

Einhver verkefni að fá hjá Óperunni

Íslenska óperan hefur boðið upp á aríu dagsins í streymi frá Hörpu. 

Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri, segir að erlendis hafi óperuhús þurft að aflýsa fjölda sýninga, blessunarlega hafi Íslenska óperan getað frestað flestum stórviðburðum. „Við erum samt að taka þátt í þessum streymum og viðburðum til að færa þjóðinni tónlistina og sönginn þegar hún þarf mest á honum að halda og við biðjum fólk ekki að vinna frítt þannig að það kemur að einhverju leyti til móts við það tekjutap sem söngvarar og listamenn eru að finna fyrir alls staðar,“ segir Steinunn. 

Nokkrir starfsmenn Íslensku óperunnar hafa farið á hlutabætur en engum hefur verið sagt upp. Steinunn vonar að ástandið vari ekki lengi, verði það raunin fari fólk auðvitað að hugsa sinn gang.

Líflína til eigendanna

Mörgum viðburðum hefur verið streymt úr Hörpu. Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu, segir mikilvægt að halda lífi í húsinu og streymið sé mikilvæg líflína sem hafi verið varpað frá húsinu og út í samfélagið, til eigenda þess. Það eru haldnir fimm streymisviðburðir í viku. Harpa leggur til aðstöðu og tæknimenn. Á fjórum þessara viðburða koma fram listamenn sem eru á launum hjá Sinfóníuhljómsveitinni eða íslensku Óperunni en einn viðburður í viku er ætlaður sjálfstætt starfandi og slegist um að koma fram að sögn Svanhildar. Skítamórall hélt til dæmis stórtónleika á föstudagskvöldið. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svanhildur Konráðsdóttir.

Geta ekki greitt sjálfstætt starfandi

Alla jafna myndi Harpa greiða fólki í þeim hópi laun en nú hefur fyrirtækið ekki burði til þess. Samkomubannið var að sögn Svanhildar hrikalegur skellur fyrir Hörpu. Síðasti stórviðburður fór fram 13. mars og þann 24. var húsinu lokað. Svanhildur segir það í algerum forgangi að standa vörð um starfsfólk tónlistarhússins. Allir hafi þurft að taka á sig skerðingar, líka stjórn og stjórnendur, allt niður í 25% starfshlutfall.  Hún segir segir að það sé ekki farið fram á það við neina að koma fram, tónlistarfólk þurfi að hafa frumkvæði sjálft. Það sé þó unnið að því að finna samstarfsaðila sem séu tilbúnir að kosta laun listamanna sem koma fram, það sé prinsippmál hjá fyrirtækinu að listafólki séu greidd laun. Svanhildur segir líka gjarnan myndu vilja sjá sérstakan streymissjóð hjá ríki eða borg. 

Skimað fyrir COVID-19 í kjallaranum

Svanhildur horfir fram á tekjuleysi í apríl og óvíst hvernig staðan þróist í maí. Þrátt fyrir að það sé ekkert viðburðahald halda sum dagleg verkefni áfram, til dæmis er verið að færa viðburði inn á sumarið og haustið og bóka ýmsa viðburði fyrir næsta og þar næsta ár. Þrátt fyrir að húsið sjálft sé lokað er bílakjallarinn svo nýttur. Þar skimar Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fyrir COVID-19. 

Er gott að streyma?

Sýn fólks á listastreymið sem hefur bjargað mörgum kyrrsetukvöldum frá því samkomubann hófst er misjöfn. Það hefur ekki verið rukkað inn á viðburði sem streymt hefur verið hér til dæmis á Facebook og ekki kallað eftir frjálsum framlögum. Það virðist bara mega í raunheimum. Erlendis eru dæmi um að listamenn nýti sér streymisveitur á borð við Twitch til að skrapa saman aurum, þar borgar fólk fyrir að fylgjast með.

Vonar að streymið verði áfram þó veiran fari

Valdimar segir að tekjurnar af afmælistónleikastreyminu hafi verið litlar, ekkert til framfærslu. Það hafi hins vegar verið mjög gefandi að geta streymt tónleikunum og hann vonar að streymi verði meira nýtt í framtíðinni. „Já, meira streymi og meiri músík í beinni útsendingu í sjónvarpinu, það er náttúrulega bara skemmtilegt, ég vona að það haldi áfram þó að veiran fari."

Steinunn Birna óperustjóri spyr sig hvort þessir tímar eigi eftir að verða til þess að listviðburðir færist meira yfir í netheima, slík þróun kunni að ógna stöðu listamanna. „Það er svona eins og þegar tónlistarmenn hættu að hafa tekjur af plötusölu því það fór allt á streymisveiturnar, sem hefur kosti og galla auðvitað. Ég held samt að allir komi út úr þessu tímabili saknandi þess að eiga sameiginlega reynslu með öðru fólki í sama sal á sama tíma.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri.

„Þetta er það sem listamenn gera, það verður ekkert stöðvað“

Erling, forseti Bandalags listamanna, segir streymið lítið laga fjárhag listamanna, fyrstu dagana eftir að samkomubann var sett á hafi listamenn sprottið fram og farið að finna hæfileikum sínum og þekkingu farveg í þessu nýja umhverfi, oft án endurgjalds. „Það er bara það sem listamenn gera, það verður ekkert stöðvað og við sem stöndum í stéttabaráttunni fyrir þau, maður hugsar stundum nei, heyrðu. Það er búið að taka af ykkur vinnuna ,ekki fara út og gefa hana núna.“

Áhyggjur af höfundaréttargreiðslum og greiðslum undir taxta

Erling segir að margir virðist líta á listamenn sem almannaeign. Hann hefur líka áhyggjur af höfundaréttargreiðslum og samþykki nú þegar verið sé að flytja ljóð og streyma gömlu leikefni. Það virðist hafa verið brotalamir þar.

Birna hjá félagi íslenskra leikara og sviðslistamanna segir að margir vilji gefa eftir rétt sinn í þessum málum vegna aðstæðna í samfélaginu en ekki hafi allir verið spurðir leyfis. Hallveig Rúnarsdóttir, formaður félags íslenskra tónlistarmanna tekur undir þessar áhyggjur. Þá segir hún hafa borið á því að listamenn sem taki þátt í streymisviðburðum á vegum stofnana fái greitt undir taxta. „Það er auðvitað svolítið mismunandi því sumir bjóðast til þess af fyrra bragði að koma fram og þá kannski ekki eðlilegt að þeir fái ekki mjög háa þóknun, í öðrum tilfellum er verið að biðja fólk og þá finnst mér mjög skrítið að það sé ekki verið að greiða samkvæmt samningum FíH. Maður tekur eftir því að víða annars staðar er þetta í öðru formi, þar er verið að streyma en þá eru umboðsmenn sterkari, sem einhverjir sem passa upp á listamennina, það er eitthvað sem vantar bara tilfinnanlega á Íslandi.“

 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Moses Hightower í beinni frá Hljómahöllinni

Innlent

Ekki sjálfsagt mál að flytja listaverk opinberlega

Leiklist

Margrét Bjarnadóttir flytur ávarp á degi leiklistar