Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Handtekinn fjórum dögum eftir að tilkynnt var um andlát

06.04.2020 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: Google Maps
Karlmaður á sextugsaldri var handtekinn fjórum dögum eftir að tilkynnt var um andlát sambýliskonu hans, grunaður um að hafa orðið henni að bana. Hann situr í gæsluvarðhaldi til 8. apríl.

Samkvæmt tilkynningu sem lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér í dag fékk lögregla tilkynningu um andlát konunnar að kvöldi 28 mars. Einn rannsóknarlögreglumaður fór á staðinn ásamt presti og lækni en í fyrstu benti ekkert á vettvangi til þess að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað. Líkskoðun á sjúkastofnun benti heldur ekki til þess. 

Fjórum dögum síðar, þann 1. apríl, leiddi niðurstaða réttarmeinafræðings aftur á móti í ljós að sterkur grunur léki á að andlátið hefði borið að með saknæmum hætti. Þá var maðurinn handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 8. apríl. Hann var sambýlismaður hinnar látnu, samkvæmt heimildum fréttastofu.  Miðar rannsókn málsins vel.

Í tilkynningunni segir að það skuli undirstrikað að lögregla hafi fylgt gildandi verklagsreglum við aðkomu að málinu frá fyrstu stundu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV