Mynd: RUV

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Gylfi stýrir hópi um nám og atvinnu í breyttum aðstæðum
06.04.2020 - 21:51
Gylfi Arnbjörnsson hagfræðingur verður starfsmaður samhæfingarhóps sem á að skoða stöðu atvinnuleitenda og námsmanna og atvinnu- og menntaúrræði þeirra vegna breyttra aðstæðna í íslensku samfélagi Gylfi stýrir vinnu hópsins, sem skipaður er að mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra.
Verkefni hópsins er meðal annars að:
- Skilgreina atvinnugreinar sem verst verða úti og hvernig megi mæta því með fjölbreyttu og viðeigandi námi og þjálfun.
- Kortleggja námsframboð og námsþjónustu sem nú er í boði innan framhaldsskóla, háskóla og framhaldsfræðslu, hvernig þau nýtast til að mæta breyttum aðstæðum og hvernig megi auka aðgengi að kynningu og ráðgjöf um nám og störf.
- Leggja mat á hvar sérstakra námsaðgerða er þörf með tilliti til aldurs, uppruna, búsetu og efnahags.
- Skoða hvernig megi tryggja og útfæra réttarstöðu einstaklinga, s.s. til atvinnuleysisbóta samhliða námi og töku námslána, þar sem horft er til jafnræðissjónarmiða. Meta stöðu námsmanna með tilliti til sumarstarfa.
Í tilkynningu vegna skipan hópsins segir að áhrifa COVID-19 faraldursins gæti í öllum atvinnugreinum og ljóst sé að þær aðgerðir sem þegar hafa verið kynntar til að styðja við vinnumarkaðinn falli í sumum tilfellum ekki vel að hlutskipti íslenskra námsmanna. Atvinnuleysi hafi aukist gífurlega og brýnt að mæta menntunar- og virkniþörf atvinnuleitenda til viðhalda, bæta og breyta færni vinnuaflsins til sóknar þegar atvinnuástand batnar.