Gætu ekki haldið úti þjónustu án liðsauka frá bakvörðum

06.04.2020 - 19:22
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir skipta öllu máli að hafa fengið liðsauka úr bakvarðasveit heilbrigðisstarfsólks í dag. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti tíu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða vestur í dag.

Einn íbúi hjúkrunarheimilisins Bergs í Bolungarvík lést í gærkvöldi af völdum COVID-19. Tveir íbúar eru nú smitaðir og þrír eru í einangrun og bíða niðurstaðna sýnatöku.

„Álagið er nú mest á Bergi þar sem þessi smit hafa komið upp og starfsmenn hafa bæði smitast og verið sendir heim í sóttkví. Við höfum náð ansi vel utan um þetta í bili, sérstaklega með þessum liðsauka sem við fengum úr bakvarðasveitinni í dag og munum fá næstu daga,“ sagði Gylfi í beinni útsendingu í kvöldfréttum sjónvarps.

Hann segir þessa bakverði skipta öllu máli.

„Það er algjör nauðsyn að hafa fengið þá. Við fengum nokkra síðustu daga og svo munu þeir áfram bætast við. Öðruvísi hefðum við ekki getað haldið úti þeirri þjónustu sem þarf svo heimilisfólki á Bergi líði vel,“ sagði Gylfi.

Hann segir að fyrst ekki sé skortur á búnaði á landinu ætti það ekki að gerast á Vestfjörðum, það væri bara úrlausnarefni hvernig best væri að koma búnaði suður. En hvernig er sjúkrahúsið á staðnum búið undir það ef smitaðir þurfa á meiri læknismeðferð að halda?

„Við gerum ráð fyrir að taka á móti alvarlega sjúkum á meðan beðið er sjúkraflugs suðurs. En sjúkrahúsinu er ekki ætlað að vera með langtímameðferð á alvarlega veikum einstaklingum,“ segir Gylfi Ólafsson.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi