Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fylgjast með líðan heilbrigðisstarfsfólks

Mynd með færslu
 Mynd: Beggi - RÚV
Alma Möller, landlæknir, hefur áhyggjur af álagi á heilbrigðisstarfsfólk þessar vikurnar á meðan COVID-19 faraldurinn geisar. Kallað hefur verið eftir upplýsingum um álagið, mönnun og aðbúnað, að því er segir í Læknablaðinu.

Landlæknir segir í viðtali í Læknablaðinu að fram undan séu langar vinnutarnir hjá heilbrigðisstarfsfólki en að reiknað sé með því að þetta sé tímabundið ástand. Heilbrigðisstarfsfólk sé vant því að vinna mikið og eigi eftir að komast í gegnum þetta tímabil.

Embætti landlæknis hefur kallað eftir upplýsingum frá heilbrigðisstofnunumum um land allt, frá Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri um stöðuna á hverjum stað svo huga megi að heilsu starfsfólksins á meðan veirufaraldurinn gengur yfir. Fyrstu skýrslurnar bárust 24. mars og er þeim skilað vikulega. Í skýrslunum eru upplýsingar um mönnnun, álag, aðbúnað, um það hvort gæðum eða öryggi sé ógnað og hvernig hafi tekist að hafa stjórn á ástandinu, er haft eftir landlækni í Læknablaðinu.

Það er einnig mikil álag á landlækni og Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni. Alma segir í viðtalinu í Læknablaðinu að hún sé Siglfirðingur og Þórólfur Vestmannaeyingur, þau hafi vertíðargen í sér og haldi sjó. Þau vinni vel saman og því sé engan bilbug að finna á þeim. Ef Alma eða Þórólfur þurfa að fara í sóttkví eða veikjast þá er fólk sem tekur við þeirra stöðum. Það er þó ekki gefið upp hver það eru.