Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aldrei fór ég suður: „Ekki koma vestur“

Mynd: Hörður Sveinsson / Hörður Sveinsson

Aldrei fór ég suður: „Ekki koma vestur“

06.04.2020 - 17:18

Höfundar

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður sem haldin hefur verið á Ísafirði um páskana í næstum tvo áratugi verður með nokkuð sérstöku sniði í ár vegna samkomubannsins. Tónleikaþáttur með tæplega 20 hljómsveitum í bland við hugleiðingar heimamanna verður sendur út kl. 20 á laugardaginn á RÚV.is og Rás 2.

Fyrst átti að streyma tónleikunum beint frá Ísafirði og Kópavogi en vegna herts samkomubanns (sem miðast nú við fimm manns á Ísafirði) verður þess í stað boðið upp á tveggja tíma dagskrá með tónlistarinnslögum frá tæplega 20 tónlistarmönnum og -konum. Sýnt verður frá tónlistarveislunni á vef RÚV og Rás 2 kl. 20 laugardaginn fyrir páska og kl. 22 á RÚV 2. Inn á milli tónlistaratriða verða svo hugleiðingar landsþekkts fólks og Vestfirðinga um hvers konar páskaafþreying hugnast þeim best, eins og bækur, bíómyndir, sjónvarpsnasl, hljómplötur og líkamsrækt.

„Ekki koma. Við ætlum eins og aðrir að hvetja fólk til að vera heima og ferðast innanhúss,“ segir Kristján Freyr rokkstjóri sem er á fullu að skipuleggja herlegheitin. Hann segir þetta einkum skrítið fyrir íbúa Ísafjarðar sem séu vanir því að íbúafjöldinn meira en tvöfaldist yfir páskahelgina. „Þetta er afar sérkennilegt. Við værum auðvitað að negla upp drapperingar og setja upp svið í skemmunni á þessum tíma, og jú, malla fiskisúpuna. En ég er bara búinn að vera að skoða Excel-skjöl og hringja í fólk eða senda því línur.“

Kristján segir að hátíðin verði haldin í svokallaðri heimaútgáfu. „Fólk sendir okkur tónlistarinnslög sérútbúin fyrir hátíðina, þetta verður svona eins og Americas Funniest Home Videos nema það verður enginn sem dettur og meiðir sig,“ segir Kristján og bætir við að Bob Saget Ísafjarðar, fallegi smiðurinn Pétur Magg, Mugison og hann sjálfur bindi atriðin saman. „Við erum búin að bæta við dagsrkána. Prins Póló, Lay Low, Eivör, Skúli mennski og Salóme Katrín bætast við þau atriði sem þegar voru bókuð. Þetta verða 20 innslög héðan og þaðan af landinu og svo verður líka Poppquiz og hugleiðingar frá landsþekktu fólki.“

Fyrst átti að streyma hátíðinni beint en Kristján sagði það hafa verið blásið af vegna breyttra öryggisaðstæðna. „Við vildum ekki tefla í tvísýnu með þetta og koma fólki í óþægilega aðstæður. Þess vegna var þessu breytt í sjónvarpstónleikaþátt. Sjáumst Aldrei heima!“

Tengdar fréttir

Tónlist

Úr sóttkví á stórtónleika með einum músarsmelli

Tónlist

Aldrei fer í streymi frá Ísafirði og Kópavogi

Tónlist

Vestfirsk slagsíða á Aldrei fór ég suður

Tónlist

Engin miðasala fimmtánda árið í röð