Á þessum degi: Maradona fellur af stallinum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Á þessum degi: Maradona fellur af stallinum

06.04.2020 - 14:24
Keppnisíþróttir víðsvegar um heiminn og hér á landi liggja niðri næstu vikur vegna COVID-19-faraldursins. Þar sem fátt er um að vera í heimi íþróttanna ætlar íþróttadeild RÚV líta um öxl. Dagurinn í dag er 3. apríl.

 

Diego Armando Maradona var án nokkurs vafa stærsta stjarnan í heimsfótboltanum á 9. áratugi síðustu aldar. Hann hafði leitt Argentínu til heimsmeistaratitils í Mexíkó 1986 og með hann fremstan í flokki hafði Napoli orðið að stórveldi í ítölskum og evrópskum fótbolta. 6. apríl 1991 féll gríman og um leið hetjan af stalli sínum.

Glímdi við marga djöfla

Sumarið 1990 leit allt vel út. Maradona hafði lyft ítalska meistaratitlinum með Napoli þá um vorið og framundan var HM í fótbolta á Ítalíu. Argentína komst þar alla leið í úrslit en tapaði þar gegn Þýskalandi.

Þá var hins vegar allt breytt. Hetjan Maradona var að verða skúrkurinn Maradona.

Í kjölfar langrar rannsóknar yfirvalda var Maradona dæmdur í 15 mánaða keppnisbann 6. apríl 1991. Yfirvöld rannsökuðu hann vegna gruns um að dreifingu og eign kókaíns. Fótboltayfirvöld tóku hann í lyfjapróf í janúar og þar kolféll hann. Keppnisbannið var það lengsta í evrópskri fótboltasögu til þess tíma. Maradona flúði til heimalandsins Argentínu en var þar snarlega handtekinn vegna eiturlyfjamála. Hetjan var leidd grátandi í burtu undir vökulum augum sjónvarpsvélanna.

En hvað hafði gerst?

Maradona kom til Napoli árið 1984. Þá var borgin ein sú fátækasta og ofbeldisfyllsta í Evrópu. Camorra-mafían réði þar ríkjum. Maradona vingaðist tiltölulega fljótlega við háttsetta menn Camorra. Mafían verndaði Maradona og hann gat komist upp með hvað sem er, virtist vera. Hægt og bítandi hófst spírall sem endaði 6. apríl.

Maradona leiddi Napoli til ítalska titilsins 1987 og varð um leið að hálfguði í augum borgarbúa. Að tala illa um Maradona var að tala illa um guð.

Í heimildarmyndinni Diego Maradona frá 2016 kemur fram að honum sjálfum hafi fundist hann vera ósnertanlegur. Partístandið jókst jafnt og þétt og kvennafarið líka. Hann var giftur tveggja barna faðir en skemmti sér jafnan með vændiskonum og viðhöldum. Hann hefur síðar viðurkennt að vera faðir sex barna með öðrum konum en eiginkonunni, öllum á árunum í Napoli.

Svo kom HM 1990.

Argentína og Ítalía mættust í undanúrslitum og að sjálfsögðu var spilað í Napoli. Maradona var drjúgur með sig fyrir leikinn. Sagði að Napolíbúar myndu aldrei styðja Ítalíu gegn sér. Ítalíu hefði alltaf verið sama um Napoli og því myndu borgarbúar styðja sig frekar.

Það gerðist ekki.

Fullu Sao Paolo leikvangurinn var á bandi Ítala. Argentína vann samt. Leikurinn fór í vítakeppni og mark Maradona var eitt lykilmarkanna í vítakeppninni. Ítalía var úr leik og samband Maradona við Napoli var fyrir bí.

Skömmu eftir HM hófu skatta- og eiturlyfjayfirvöld að skoða Maradona. Enginn tók lengur upp hanskann fyrir hann. Eftirlit og símahleranir stóðu yfir frá haustinu 1990.

Í janúar 1991 var hann handtekinn og 6. apríl 1991 var hann dæmdur í bann. Enginn frá Napoli-liðinu mætti við dómsuppkvaðninguna né kvaddi hann.

Hálfguðinn fór með skömm heim til Argentínu.

Ferill Maradona náði sér aldrei á strik almennilega eftir þetta. Hann lék með Sevilla 1992-1993 og svo Newell‘s Old Boys 1993-1994. Hann komst í lið Argentínu á HM í Bandaríkjunum 1994 en féll þá aftur á lyfjaprófi, að þessu sinni var það örvandi efnið efedrín sem fannst í honum. Maradona var rekinn heim og spilaði aldrei aftur fyrir landsliðið.

Ferlinum lauk svo þar sem hann hófst; með Boca Juniors í Argentínu. Þar lék hann 1995-1997 þegar skórnir fóru á hilluna.

 

 

 

Fyrstu Ólympíuleikarnir settir

6. apríl 1896 voru fyrstu nútímaólympíuleikarnir settir í Aþenu í Grikklandi. Leikarnir voru hugarfóstur Pierre de Coubertin sem stofnaði Alþjóða Ólympíunefndina tveimur árum áður.

Leikarnir voru öllu minni í sniðum 1896 en þeir eru nú. Keppt var í 9 greinum og voru keppendur 241, allt karlar. Nú eru keppendur yfir 10 þúsund og af báðum kynjum.

Leikarnir stóðu frá 6. apríl 1896 og var slitið 9 dögum síðar.

Íslandsmeistarar dagsins

Vísir heldur áfram að taka saman lið sem hafa hampað Íslandsmeistaratitli á þessum degi. Í dag eru það karlalið Keflavíkur í körfubolta 1997, kvennalið ÍBV í handbolta 2000, kvennalið KR í körfubolta 2010 og kvennalið Snæfells í körfubolta 2014. 

Nánar má lesa um þetta á Vísi.