Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

100 milljóna halli á rekstri málaflokks fatlaðs fólks

06.04.2020 - 12:43
Mynd með færslu
Akureyri í vetrarbúningi. Mynd:
Akureyrarbær fær átta milljónir frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að gera úttekt á málaflokki fatlaðs fólks. Hallarekstur bæjarins vegna þjónustunnar síðastliðið ár er um 100 milljónir.

Akureyrarbær óskaði eftir stuðningi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að gera úttekt á málaflokki fatlaðs fólks. Í beiðni frá bæjarstjóra segir að hallarekstur þjónustunnar vegna síðastliðins árs verði að öllum líkindum um 100 milljónir króna og uppsafnaður halli milli áranna 2011-2019 sé um hálfur milljarður króna. Eðlilega eigi sveitarfélagið ekki að greiða með rekstrinum, því sé óskað eftir fjármagni til að taka hann út. Jöfnunarsjóður hefur samþykkt að veita allt að átta milljónir króna í úttektina. 

Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hefur óskað eftir upplýsingum frá Akureyrarbæ um aðgerðir til að létta rekstur A-hluta sveitarfélagsins sem hefur verið neikvæður undanfarin fjögur ár. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, segir úttektina part af heildarendurskoðun hjá sveitarfélaginu. Hún vonast til þess að úttektin gefi greinargóðar upplýsingar um reksturinn, málaflokkurinn sé stór og mikið fjármagn fari í hann. „Við viljum sjá hvort við getum gert betur í rekstrinum en við teljum okkur veita mjög góða þjónustu.“

Þetta er fyrsta úttektin sem er gerð á málaflokknum en þjónustan er sú stærsta sem er rekin utan Reykjavíkur.