Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonskuveður um allt land og vegir víðast lokaðir

05.04.2020 - 08:13
Myndir frá Landsbjörg af björgunaraðgerðum í óveðrinu í desember.
 Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg
Vonskuveður gengur nú yfir landið og appelsínugul viðvörun er í gildi á öllu landinu að höfuðborgarsvæðinu undanskildu, en þar er gul viðvörun. Ekkert ferðaveður er á landinu og fjölmargir vegir eru ýmist ófærir eða lokaðir og munu vera það fram eftir degi og til kvölds miðað við veðurspá, að því er frem kemur á vef Vegagerðarinnar. Björgunarsveitir víða á landinu hafa sinnt útköllum í alla nótt, og hjálpað fólki sem hefur lent í vanda vegna ófærðar.

Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið á fólki.

Á meðal vega sem eru lokaðir má nefna Hellisheiði, Þrengsli, Suðurstrandarveg og Mosfellsheiði, en þar er stórhríð samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Þá er Holtavörðuheiðin einnig lokuð, auk flestra fjallvega um allt land.

Ekkert hefur verið flogið innanlands í morgun, en hjá Air Iceland Connect á að athuga með flug klukkan 10.

Veðurspáin er svohljóðandi:

„Það verður norðaustan stormur eða rok í dag og allvíða talsverð snjókoma, en appelsínugular hríðarviðvaranir eru í gildi um mest allt land. Veðrið skánar um landið sunnan- og austanvert síðdegis og í kvöld, en þá snýst í hægari suðaustanátt með rigningu og hlýnandi veðri. Í nótt og í fyrramálið batnar svo veðrið norðvestanlands. Það hvessir aftur á morgun, en þá gengur í suðvestan 15-23 m/s með skúrum og síðar éljum.“