Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Verum hluti lausnarinnar, ekki vandans“

Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV
„Nú þegar dymbilvikan og páskar eru fram undan bætist við sú skýra ósk Víðis, sem allir hlýði, að ferðast aðeins innanhúss. Verum skynsöm. Verum öll í sama liði. Verum hluti lausnarinnar, ekki vandans,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar gerir hann kórónuveirufaraldurinn að umtalsefni og viðbrögð landsmanna við honum.

Í stöðuuppfærslunni minnist Guðni þeirra tveggja sem létust í vikunni, af völdum kórónuveirunnar.

„Fyrir hönd okkar Elizu votta ég ástvinum þeirra innilega samúð. Og enn skulu ítrekaðar þakkir til allra þeirra sem standa núna í ströngu við að vernda líf og heilsu fólks. Að viku liðinni, á páskadag, mun ég ávarpa ykkur með formlegri hætti, ágætu landar mínir,“ segir Guðni.

Þá minnist Guðni á nokkra þeirra fjölda viðburða sem slegið hefur verið á frest vegna faraldursins.

„Í vikunni tók ég glaður þátt í þjóðarátakinu „Tími til að lesa“ sem snýst um að lesa sér til yndis og fróðleiks – og setja jafnvel heimsmet á þeim vettvangi. Lestur er ljúfur, styttir stundir, eykur vit og örvar sköpun.“

Loks minnir Guðni landsmenn á að þvo sér vandlega um hendur, virða tveggja metra mannhelgi utan heimilis og fylgja öllum reglum um sóttkví og einangrun þar sem það á við.