Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þjóðarskútunni siglt í strand á sviði Þjóðleikhússins

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Þjóðarskútunni siglt í strand á sviði Þjóðleikhússins

05.04.2020 - 12:29

Höfundar

Leikverkið Hart í bak er ein af perlum íslenskra leikbókmennta. Gunnar Eyjólfsson fór á kostum í uppsetningu verksins 2008 í hlutverki skipstjóra sem sigldi óskafleyi íslensku þjóðarinnar í strand. „Það er það sem var að gerast hjá okkur. Það var verið að sigla þjóðarskútunni í strand,“ segir Þórhallur Sigurðsson leikstjóri. „Þannig að þessi texti lifnaði allur gjörsamlega við.“

Upptaka af sýningunni Hart í bak frá árinu 2008 er á dagskrá RÚV 2 í kvöld.  Leikverkið var frumsýnt árið 1962, þá var höfundur þess, Jökull Jakobsson, einungis 29 ára gamall. Hart í bak var sérstakur hluti á ferli hans segir Þórhallur Sigurðsson leikstjóri. Flestir gagnrýnendur hafi verið sammála um að íslensk nútímaleikritun væri þar með hafin. Verkið var sett á svið á ný árið 2008 við góðar undirtektir í leikstjórn Þórhalls. „Það sýndi sig að leikritið átti sannarlega erindi ennþá í dag.“

Textinn lifnaði við

Hart í bak er samtímaverk að því leyti að margir geta speglað sig í persónum verksins, segir Elva Ósk Ólafsdóttir sem fór með hlutverk spákonunnar Áróru. „Þau eru öll að berjast fyrir betra lífi og lífsbaráttan var hörð á þessum tíma. Ég held að við getum öll sett okkur í spor þeirra.“ Texti Jökuls small aukinheldur við þá tíma sem Íslendingar lifðu árið 2008. „Það er talað um í leikritinu að sigla þjóðarskútunni í strand. Það er það sem var að gerast hjá okkur. Það var verið að sigla þjóðarskútunni í strand,“ segir Þórhallur. „Þannig að þessi texti lifnaði allur gjörsamlega við.“

Gunnar Eyjólfsson, sem lést 2016, fór með hlutverk Jónatans skipstjóra í sýningunni og var það síðasta stóra hlutverk hans. „Það var sérstaklega ánægjulegt að fá tækifæri til að vinna með Gunnari, sem var mér mjög kær, maður og leikari,“ segir Elva Ósk.

Draugagangur í leikhúsinu

Verkið var sýnt í heilt leikár en ein sýning er Elvu Ósk minnisstæðari en aðrar. „Það var ein sýning hér í apríl 2009 þar sem allt fór úr böndunum sem hægt gat. Það var einhver draugagangur hér í húsinu. Þetta er nú þekkt hús fyrir draugagang en ég hef aldrei fundið almennilega fyrir honum. En þarna var eitthvað alvarlegt á sveimi.“ Elva varð vör við mikil veislulæti þar sem sviðsmennirnir héldu sig öllu jafna til, í miðri sýningu. Þegar hún ætlaði að biðja þá um að hafa sig hæga þá blasti við henni mannlaust herbergi. Ein leikkonan fann ekki búninginn sinn, gauksklukka fór skyndilega straumlaus í gang og aðrir dularfullir atburðir áttu sér stað. „Ég veit að sýningarstjóri tók þetta saman og setti í skýrslu. Þannig að þetta er einhvers staðar til,“ segir hún og hlær.

Leiksýningin Hart í bak verður sýnd á RÚV 2 klukkan 19:30 í kvöld. Er sýningin önnur í röð leiksýninga sem sýndar verða í sjónvarpi í samstarfi við Þjóðleikhúsið í apríl.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Stefán Karl stal senunni í hvert einasta skipti“

Leiklist

RÚV og Þjóðleikhúsið bjóða landsmönnum í leikhús