Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skólastjóri VÍ: „Krakkarnir verða útskrifaðir“

05.04.2020 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Stjórnendur framhaldsskóla stefna að því að útskrifa nemendur í vor þrátt fyrir samkomubann. Nemendum verður meðal annars gert að þreyta rafræn próf og klára heimaverkefni.

 

Öllum framhaldsskólum landsins var lokað í síðasta mánuði þegar samkomubannið tók gildi. Skólarnir hafa síðan þá stuðst við fjarkennslu og bæði nemendur og kennarar þurft aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

Í síðustu viku var ákveðið að framlengja samkomubannið til 4. maí og því óljóst hvort hægt verður að útskrifa nemendur með hefðbundnum hætti.

„Við erum að búa okkur undir það að klára kennsluna rafrænt eða í fjarnámi eins og við höfum gert hingað til.  Prófin sem áttu að vera í maí verða samkvæmt próftöflu. Sum verða rafræn heimapróf en í einhverjum tilvikum eru kennarar búnir að breyta námsmati og verða með próflausan áfanga,“ segir Ingi Ólafsson skólastjóri Verzlunarskóla Íslands.

Elísabet Siemsen rektor Menntaskólans í Reykjavík segir að miðað verði við að hver bekkjardeild einbeiti sér að þremur námsgreinum fyrir stúdentspróf.

„Það verða öðruvísi stúdentspróf. Hver bekkur tekur þrjár greinar og einbeitir sér að þeim. Fá þá lengri tíma fyrir hverja. Við ljúkum þessu með einhvers konar prófi eða verkefni,“ segir Elísabet.

Í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti eru um 60 prósent nemenda í verklegu námi. Stefán Andrésson aðstoðarskólameistari segir að áhersla verði lögð á að ljúka skólaárinu á eins eðlilegan hátt og hægt er. Ekki sé búið að móta fyrirkomulag varðandi lokapróf í verklegu námi en skólinn muni aðstoða nemendur hvað það varðar.

Allir skólastjórnendur sem fréttastofa talaði við segja að engin endanleg ákvörðun liggi fyrir varðandi útskriftarhátíð.

„Við finnum einhverja lausn á því. Krakkarnir verða útskrifaðir og þau fá sín skírteini en hvort það verður með hefðbundnum hætti í Háskólabíói við hátíðlega athöfn það verður bara að koma í ljós,“ segir Ingi Ólafsson
 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV