Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óveður og ófærð: „Það er búið að vera nóg af verkefnum“

05.04.2020 - 09:05
Mynd: Landsbjörg / Landsbjörg
„Það var þónokkuð að gera hjá björgunarsveitum í gær og fram á kvöld. Svo eru björgunarsveitir búnar að vera að í alla nótt,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. Vonskuveður gengur nú yfir landið og appelsínugul viðvörun er í gildi á öllu landinu að höfuðborgarsvæðinu undanskildu, en þar er gul viðvörun. Ekkert ferðaveður er á landinu og fjölmargir vegir eru ýmist ófærir eða lokaðir. 

Björgunarsveitir víða á landinu hafa sinnt útköllum í alla nótt, og hjálpað fólki sem hefur lent í vanda vegna ófærðar. Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá nokkrar myndir sem björgunarsveitarmenn hafa tekið í aðgerðunum.

„Það hefur verið langmest af verkefnum í Árnessýslunni, á Hellisheiði og Suðurstrandaveginum,“ segir Davíð. „Þetta eru nánast allt verkefni tengd ófærð, það er verið að aðstoða ökumenn sem hafa lent í vandræðum af því að færð spilltist mjög í gærkvöldi. Og á miðnætti þurfti að kalla til þrjá snjóbíla sem hafa verið í verkefnum í alla nótt.“

Fleiri verkefni í dag

Davíð hefur ekki upplýsingar um hversu mörgum útköllum björgunarsveitir hafa sinnt síðan í gær.

„Það er búið að vera nóg af verkefnum en færðin er búin að vera það slæm og skyggni lítið að þetta hefur gengið mjög hægt. Það hefur tekið björgunarsveitarfólk þónokkurn tíma að komast á staðinn þar sem ökumenn eru í vanda, einfaldlega vegna þess að færðin og skyggnið gerir það að verkum að björgunarsveitarfólk ferðast hægt yfir.“

Og það hefur verið mjög vont veður víða, og er enn?

„Já og núna rétt fyrir klukkan 8 var verið að óska eftir aðstoð björgunarsveita á Suðurnesjum til þess að aðstoða við ófærð innanbæjar. Svo skilst mér að ástandið sé þannig í Árnessýslunni að það sé mjög léleg færð, eins og milli Hveragerðis og Selfoss. Þannig að það er alveg við því að búast að það verði einhver verkefni í dag við að koma skikki á þetta og greiða úr flækjum sem hafa mögulega myndast í nótt,“ segir Davíð.