Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Erill hjá björgunarsveitum vegna ökumanna í vanda

05.04.2020 - 00:22
Innlent · færð · Veður
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Þorri Helgi
Töluverður erill hefur verið hjá björgunarsveitum á Suðurlandi frá því um kvöldmatarleytið í kvöld, þar sem fjöldi ökumanna hefur lent í vandræðum vegna veðurs, færðar og umfram allt lélegs skyggnis. Víðast hvar á landinu er ekkert ferðaveður vegna veðurs og ófærðar og mun það óvíða skána fyrr en langt er liðið á sunnudag. Er fólk því eindregið hvatt til að halda sig heima.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir hátt í eitt hundrað félaga í björgunarsveitum hafa tekið þátt í aðgerðum í Árnessýslu og á Hellisheiði, Þrengslum og Suðurstrandarvegi í kvöld, mest vegna ökumanna sem komust ekki leiðar sinnar vegna slæms skyggnis. Hefur Davíð eftir björgunarsveitarfólki á vettvangi að skyggnið hafi ekki verið nema einn til tveir metrar þar sem það var minnst.

Á tólfta tímanum var farið að hægjast um hjá björgunarsveitunum syðra, enda búið að loka flestum vegum á þessu svæði og hvetur Davíð Már fólk til að virða lokanir og hlýða Víði og vera heima. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV