Yfir 6.500 látin í Frakklandi

04.04.2020 - 07:39
epa08341851 Two security guards wearing protective facial masks stand outside La Poste office in the 15th district of Paris, France, 03 April 2020. France is under lockdown in an attempt to stop the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus causing the COVID-19 disease.  EPA-EFE/MOHAMMED BADRA
Í Frakklandi er vor í lofti og hefðbundinn tími ferðalaga upp runninn. Útgöngubann er þó í gildi og stjórnvöld brýna landsmenn til að halda sig heima og bjarga þannig mannslífum Mynd: EPA-EFE - EPA
Heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi tilkynntu í gær að 588 til viðbótar hefðu dáið á sjúkrahúsum landsins af völdum COVID-19, næstliðinn sólarhring. Inni í þessum tölum eru ekki þau sem látist hafa á elli- og hjúkrunarheimilum landsins, en þau eru, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum, 1.416 talsins. Alls eru dauðsföll í Frakklandi sem rakin eru til farsóttarinnar því orðin rúmlega 6.500.

Jerome Salomon, heilbrigðisráðherra, sagði 1.186 manns hafa verið lagða inn á sjúkrahús vegna veirusýkingarinnar síðasta sólarhringinn, þar af 263 á gjörgæslu. Eru þetta nokkru færri innlagnir en verið hafa undanfarna viku. 5.233 bættust í hóp smitaðra, sem ráðherrann segir nú vera samtals rúmlega 64.000 talsins. Rúmlega 14.000 hafa náð sér af veikinni í Frakklandi, samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans.

Ekki ferðast!

Strangt samkomubann og í raun útgöngubann hefur verið í gildi í Frakklandi frá 17. mars, þar sem enginn má vera á ferli utandyra nema brýna nauðsyn beri til. Undir venjulegum kringumstæðum væri mikil ferðahelgi í vændum í Frakklandi eins og svo víða annars staðar í aðdraganda páska, en ráðherrann undirstrikaði að slíkt væri ekki inni í myndinni að þessu sinni. „Verið heima hjá ykkur ef þið viljið bjarga mannslífum,“ sagði Jerome. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi