Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrettán smitaðir í 2.300 manna slembiúrtaki

04.04.2020 - 21:49
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Íslensk erfðagreining hefur skimað fyrir kórónuveirunni sem veldur COVID-19 meðal 2.300 Íslendinga sem valdir voru af handahófi. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir að þrettán þeirra hafi reynst hafa sýkst af veirunni. Þetta þýði að 0,6 prósent af fólki á höfuðborgarsvæðinu, sem ekki er í sóttkví, virðist hafa smitast. 

Kári greindi frá því í fréttum Stöðvar 2 í gær að sex einstaklingar reyndust smitaðir í tólf hundruð manna slembiúrtaki Íslenskrar erfðagreiningar.  Dreifing veirunnar í samfélaginu virðist ekki vera að aukast og aðgerðir almannavarna að virka. Nú hafa ellefu hundruð sýni til viðbótar verið skimuð og fjöldi smitaðra í úrtakinu 13. 

Fram kom á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag að 53 smit hafi greinst síðastliðinn sólarhring, átta fleiri en í gær. Virk smit eru 1.017 og færri veikir í dag en í gær.

Alma Möller landlæknir sagði á fundinum að faraldurinn væri í hægum línulegum vexti. Þegar hún var spurð um þýðingu þess að virk smit voru færri í dag en í gær svaraði hún því til að of snemmt að segja að hámarki væri náð, en það nálgaðist. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV