Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Stefán Karl stal senunni í hvert einasta skipti“

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

„Stefán Karl stal senunni í hvert einasta skipti“

04.04.2020 - 12:03

Höfundar

Stefán Karl Stefánsson fór með mörg minni hlutverk í leiksýningunni Í hjarta Hróa Hattar, sem frumsýnd var á Íslandi 2015. Leiksýningin hefur verið sett upp víða um heim en Gísli Örn Garðarsson leikstjóri segir að engum hafi tekist að feta í fótspor Stefáns Karls.

Í hjarta Hróa Hattar er vinsæl fjölskyldusýning úr smiðju Vesturports og Þjóðleikhússins. Í verkinu er goðsögunni um þennan fræga útlaga snúið á hvolf. Verkið var frumsýnt í London árið 2012 og fært á svið Þjóðleikhússins árið 2015, en það hefur farið víða um heim og verið sýnt í Bandaríkjunum, Kanada, Noregi, Svíþjóð og nú síðast í miðjum mótmælum í Hong Kong. Sýningin er á dagskrá RÚV 2 í kvöld, þar sem ýtt verður úr vör leikhúsveislu í stofunni með völdum sýningum Þjóðleikhússins.

Gísli Örn Garðarsson leikstjóri og Lára Jóhanna Jónsdóttir sem fer með hlutverk Maríönnu rifjuðu upp sýninguna af því tilefni. Lára Jóhanna segir að sú Maríanna sem birtist í sýningunni sé allt annað en hefðbundin persóna. „Hún er rosa mikill töffari, hún ætlar að verða hetja og bjarga heiminum og ganga til liðs við Hróa Hött ... Oft í þessum gamaldags sögum eru konur eiginlega eins og helgimynd, þær eru ósnertanlegar eins og það sé geislabaugur yfir þeim.“ Í sýningunni sé Maríanna aftur á móti drífandi persóna sem færir söguna áfram. „Hún tekur ákvarðanir, fer fram úr sér og kemur sér í vandræði.“

Leist illa á að leikstýra verkinu

Gísli Örn segir að honum hafi í fyrstu alls ekki litist vel á að leikstýra verkinu þegar höfundur þess, David Farr, hafði samband við hann. „Það fyrsta sem ég hugsaði var nei takk, því mér finnst Hrói Höttur frekar leiðinlegt konsept, það er ekkert nýtt í því.“ David tókst þó að sannfæra Gísla um að lesa handritið áður en hann ýtti því með öllu af borðinu. „Þá snerist mér mjög hratt hugur. Vegna þess að eins og Lára Jóhanna bendir á þá er Maríanna raunverulega hetjan sem við fylgjumst með í þessari útgáfu. Hrói Höttur er karlpungur úti í skógi ásamt hinum strákunum og þarf engar konur. Því þær rugla í hjörtum manna og best að halda fjarlægð við þær. “

Stefán Karl Stefánsson lék mörg minni hlutverk í sýningunni og stal senunni í hvert einasta skipti segir Gísli Örn, en Stefán Karl lést úr krabbameini 2018. „Þetta segir svo mikið um það hvað hann var magnaður listamaður hann Stefán Karl. Það höfðu margir  leikið þessi hlutverk úti um allan heim og þetta voru svona hlutverk sem enginn tæki eftir, undir eðlilegum kringumstæðum. En hérna stal hann senunni í hvert einasta skipti í öllum þessum hlutverkum. Það hefur enginn náð að fylla í þetta eftir á, þótt við höfum sett þetta upp víða. Það hefur enginn náð að feta í hans fótspor hvað þetta varðar.“

Leiksýningin Í hjarta Hróa Hattar verður sýnd á RÚV 2 klukkan 19:30 í kvöld. Verður sýningin sú fyrsta í röð leiksýninga sem sýndar verða í sjónvarpi í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Virkilega útpælt, kúl sýning!“

Leiklist

Menningarveturinn - Þjóðleikhúsið