Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sinn er siður í landi hverju - líka á tímum Covid-19

04.04.2020 - 07:30
Mynd: EPA-EFE / EPA
Áhrif kórónuveirunnar Covid-19 daglegt líf fólks út um allan heim eru mikil. Við erum hætt að takast í hendur, við erum orðin háð streymisveitum, falsfréttir grassera sem aldrei fyrr, og stjórnmálamenn og leiðtogar þjóða bregðast á mjög ólíkan hátt við komu þessa vágestar.

Í þrítugasta og fyrsta þætti Heimskviðna fara þáttarstjórnendur í ferðalag um víða veröld og skoða áhrif veirunnar, og ólík viðbrögð þjóðarleiðtoga við þessum heimsfaraldri. 

Boltinn rúllar í Hvíta-Rússlandi

Í borginni Mazyr í suðuaustur-hluta Hvíta-Rússlands, skammt frá úkraínsku landamærunum í suðri og þeim rússnesku í austri, fer fram fótboltaleikur milli heimamanna í Slavia gegn stórveldinu Bate frá Borisov, fimmtánföldum meistörum og sigursælasta liði liði landsins. Eftir um tíu mínútna leik fær Willum nokkur Willumsson, 22 ára Kópavogsbúi, boltann á hægri kantinum. 

Hann leikur á einn varnarmanna Slavia og skorar með þrumuskoti upp í samskeytin fjær. Glæsilegt mark.

Eins og sjá má fagna áhorfendur gestanna frá Borsiov vel og innilega, og hið sama má segja um leikmenn liðsins. Þeir knúsast og kyssast, gefa fimmur og slá á rassa. Úrslit þessa tiltekna leiks skipta ekki höfuðmáli hér, eða sú áhugaverða staðreynd að í Hvíta-Rússlandi hafi þingmannssonur lifibrauð af því að spila fótbolta. Það sem skiptir máli hér er að leikurinn fór fram um síðustu helgi; önnur umferð fer fram í hvít-rússnesku deildinni um helgina.

Það er nefnilega svo að heimsfaraldur COVID-19 hefur ekki mikil áhrif á daglegt líf í Hvíta-Rússlandi.

„Þeir sem eru veikir koma ekki hingað,“ segir kennarinn Lyudmila, stuðningsmaður Slavia Mozyr. „Við komum öll frá litlu þopi og við höfum ekki þessa veiru,“ segir hún áður en hún heldur inn á völlinn ásamt þúsundum annarra til að styðja sitt lið. Þótt fyrsta tilfelli Covid-19 hafi greinst í Hvíta-Rússlandi í lok febrúar, og nú séu 163 staðfest smit í landinu, hafa stjórnvöld gert lítið sem ekkert við að sporna við útbreiðslu veirunnar. Seint í mars var þeim tilmælum komið áleiðis til þeirra sem komu til landsins að æskilegt væri að þeir færu í fjórtán daga sóttkví. Diplómatar og fjölskyldur þeirra voru þó undanþegnir þeirri kvöð. Almenningur í landinu hefur engar leiðbeiningar fengið um hvernig sé best að haga sér á þessum undarlegu tímum, ekkert útgöngu- og samkomubann er við lýði.

Lúkasjenkó samur við sig

Skyldi kannski engan undra, enda er forseti landsins, Alexander Lúkasjenkó - sem hefur verið forseti frá því 1994 og eini forseti landsins frá hruni Sovétríkjanna, sultuslakur. Um miðjan mars sagði hann að væri fólk áhyggjufullt yfir þessari pest, ætti það að drekka vodka og skella sér í banya - hvít-rússnesku útgáfuna af guðubaði.

epa08331337 A photograph made available on 30 March shows Belarusian President Alexander Lukashenko (R) in action during XIII Republican amateur ice hockey competition of the Presidential Sports Club in Minsk, Belarus, 28 March 2020. Belarus didn't suspend sport games, as most of European countries did because of coronavirus COVID19 pandemic.  EPA-EFE/ANDREI POKUMEIKO / POOL
 Mynd: EPA-EFE - BELTA POOL
Lúkasjenkó á svellinu í Minsk í vikunni.

Þetta var um miðjan síðasta mánuð og í ljósi þess að heimurinn hefur gjörsamlega farið á hliðina síðan þá, mætti ætla að forsetinn hefði skipt um skoðun. Svo er ekki. Hann tók þátt í íshokkíleik í höfuðborginni Minsk í vikunni, fyrir fullu húsi.

Lúkasjenkó hefur stundum verið kallaður síðasti einræðisherrann í Hvíta-Rússlandi og er landið aftarlega á merinni, samanborið við önnur Evrópulönd, hvað viðkemur fjölmiðlafrelsi og gagnsæi stjórnvalda. Ítök ríkisins eru sterk og ríkið stjórnar nær öllum stórum fyrirtækjum í landinu.

En eins og allir vita, virðir kórónuveiran engin landamæri og því eru miklar líkur á því að sannleikanum um útbreidd smit sé haldið frá almenningi í Hvíta-Rússlandi. Ein ástæðan fyrir því að stjórnvöld draga úr alvarleika þessa heimsfaraldurs er án efa sú að efnahagur landsins myndi ekki þola útgöngu- og samkomubann. Veiran hefur nú þegar höggið sköð í efnhag flestra ríkja heims, en ólíkt nágrannaríkjum Hvíta-Rússlands í Evrópu býr landið ekki yfir fjárhagslegri getu til að halda fyrirtækjum á floti.

Lífið heldur því áfram sinn vanagang í Hvíta-Rússlandi, að minnsta kosti um stundarsakir, og Willum Willumsson þarf að reima á sig takkaskóna á laugardaginn, þegar Bate Borsiov liðar taka á móti Ruh Brest á heimavelli - velli sem tekur þrettán þúsund manns.

epa01675101 President of Turkmenistan Gurbanguly Berdymukhammedov (C) inspects the guard of honor following his arrival at Vnukovo II airport outside Moscow, Russia, 24 March 2009. Gurbanguly Berdymukhammedov arrived in Russia for an official visit.  EPA/SERGEI ILNITSKY
 Mynd: epa.eu
Berdymukhamedov, forseti Túrkmenistan.

Engin kórónuveira í Túrkmenistan

En það er ekki bara í Hvíta Rússlandi sem stjórnvöld neita að horfast í augu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Stjórnvöld í Mið-Asíuríkinu Túrkmenistan, þvertaka fyrir það að nokkur hafi smitast af veirunni í landinu. Suðurhluti landsins liggur að Íran, sem er skilgreint sem áhættusvæði og þar sem yfir fimmtíu þúsund smit hafa verið greind eru líklega mun, mun fleiri smitaðir þar.

Forseti landsins, Gurbanguly Berdymukhamedov  hefur ekki minnst orði á faraldurinn en forsetinn er mjög fyrirferðamikill í daglegu lífi Túrkmena, og ávarpar þjóð sína reglulega. Engir frjálsir fjölmiðlar eru í landinu og því er ógerningur að vita hvort stjórnvöld séu að gera nokkuð til að koma í veg fyrir útbreiðslu faraldursins. Flugi til og frá Kína var þó engu að síður hætt, en almenningur fékk ekki að vita af hverju.

Í vikunni var greint frá því að forsetinn og hans fólk hefði hreinlega lagt blátt bann við noktun orðsins kórónuveira í landinu, og beinlínis ætlað sér þannig að banna sjálfa veiruna. Þessi frétt fór á flug, enda elska vestrænir fjölmiðlar fátt meira en furðusögur frá Túrkmenistan. Þetta er þó ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Fréttamiðillinn Euraasianet, sem sérhæfir sig í málefnum Mið-Asíuríkja, greindi frá því í vikunni að þótt túrkmensk stjórnvöld séu vissulega að stinga höfðinu í sandinn hvað viðkemur útbreiðslu veirunnar, hafi þau hingað til ekki fangelsað neinn fyrir að segja orðið kórónuveira.

Á tímum kórónuveiru, getur nefnilega verið erfitt að greina rétt frá röngu, enda sjáum við nú fyrirsagnir á hverjum degi sem við hefðum áður aldrei trúað. Hvað eru raunverulegar fréttir, og hvað eru falsfréttir?

Mynd með færslu
 Mynd: https://pixabay.com/p-1903774/?n

Gósentíð falsfrétta

Falsfréttir og lygasögur eru ekkert nýjar af nálinni. Ónefndi afinn á Hrekkjusvínaplötunni, var ekki sá fyrsti til að afbaka sannleikann, og heldur alls ekki sá síðasti. Nú á kórónuveirufaraldurinn hug okkar allan og það sama á við um falfréttasmiði. Ursula Von Der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, deildi áhyggjum sínum af uppgangi falsfrétta á óvissutímum sem þessum.

Falsfréttir geta auðvitað verið mis alvarlegar. Líkt og von der Leyen bendir á lækna sítrónur og hvítlaukur ekki COVID-19. Þannig hefur fjöldi fólks deilt heillaráðum frá Bill Gates á samfélagsmiðlum, langur póstur um hvaða lærdóm má draga af kórónuveirufaraldrinum, hann sé meðal annars áminning um að við erum öll jöfn. Voða falleg skilaboð, en þau skrifaði Bill Gates hins vegar aldrei.

Annað fals flokkast þó líklega sem alvarlegra gabb, í Bretlandi hafa reglulega skotið upp kollinum býsna raunverulegar færslur á Twitter og Facebook merktar ýmsum lögregluumdæmum eða jafnvel stjórnvöldum í Bretlandi þar sem ýmis skilaboð eru gefin út varðandi hegðun og reglur á þessum skrýtnu tímum.

Stjórnendur samfélagsmiðla á borð við Twitter og Facebook hafa reyndar sent út öflugt tiltektarlið til að fjarlægja falsfréttir af miðlunum. Og þar skiptir ekki máli hvort þú heitir Jón eða séra Jón. Þannig hefur Facebook fjarlægt færslur frá forseta Brasilíu, Jair Bolsonaro, sem deildi fréttum af mis gáfulegum lækningaraðferðum. Bolsonaro hefur reyndar verið öflugur á samfélagsmiðlum síðan faraldurinn braust út, en ólíkt flestum öðrum jarðarbúum er hann meira í að draga úr alvarleika faraldursins og mikilvægi þess að halda hæfilegri fjarlægð frá næsta manni.

Þá tók Twitter út færslu sem Nicolas Maduro, forseti Venesúela, endurbirti, þar sem gefin voru góð ráð um hvernig lækna mætti COVID-19 heima við.

epa08315631 Hungarian Prime Minister Viktor Orban delivers his speech about the current state of the coronavirus during a plenary session in the House of Parliament in Budapest, Hungary, 23 March 2020.  EPA-EFE/Tamas Kovacs HUNGARY OUT
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Mynd: EPA-EFE - MTI
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, á þinginu í vikunni.

Er Viktor Orban orðinn einræðisherra í Ungverjalandi?

Við nefndum hér áðan afneitun Hvít-Rússa og Túrkmena á útbreiðslu kórónuveirunnar. Stjórnvöld þar eru þó langt í frá þau einu sem hafa gert lítið úr alvarleika faraldursins, nærtækt dæmi er Donald Trump Bandaríkjaforseti. En svo er hin hliðin á þeim pólitíska peningi sem vert er að skoða, hvernig leiðtogar geta nýtt sér þann óstöðugleika sem myndast til þess að tryggja völd sín enn frekar.

Mörgum brá í brún þegar frændur okkar og frænkur á norska þinginu samþykktu í síðustu viku að heimila ríkisstjórn landsins, að setja lög án aðkomu þingsins - vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem Covid-19 hefur skapað. Björnar Moxnes, leiðtogi vinstri flokksins Rautt, sagði í kjölfarið að Erna Solberg, forsætisráðherra, væri þannig orðin fyrist einræðisherra Noregs á friðartímum, í rúm tvö hundruð ár. Taka skal þó fram að þessi heimild gildir aðeins í mánuð og þingið getur afturkallað hana og Solberg hefur þvertekið fyrir að þessi umdeilda lagabreyting eigi nokkuð skylt við valdarán.

En þetta vekur okkur til umhugsunar um stöðu lýðræðis á tímum Covid-19. Í Silfrinu á RÚV síðasta sunnudag, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og forstjóri Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnuar Evrópu, ÖSE, að það eitt að lýsa yfir neyðarástandi, eins og vel flest ríki ÖSE eru búin að gera, feli eðli málsins samkvæmt í sér ákveðin brot á mannréttindum. Það geti því verið freistandi fyrir stjórnmálamenn og stjórnvöld víða, að ganga á lagið í þessu ástandi sem nú ríkir. „Við skulum heldur ekki gleyma því að það eru auðvitað til stjórnvöld, svo ég noti það orðalag, sem vilja nota ferðina, til að ná ýmsu öðru fram í leiðinni,“ sagði Ingibjörg Sólrún.

Stöldrum aðeins við þessi orð Ingibjargar. Að þeir noti ferðina. Einn þeirra stjórnmálamanna sem virðist sannarlega vera nota ferðina er Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, en í vikunni samþykkti ungverska þingið lög sem veita honum völd sem ekki hafa sést áður á friðartímum í Evrópu.

Orban fær nú að stýra landinu með tilskipunum, sínum eigin. Hann þarf ekki samþykki þingsins eða ríkisstjórnar sinnar, sem Erna Solberg þarf þó meira að segja. Flokkur Orbans, Fidesz, hefur rúman meirihluta í neðri deild þingsins og því kom ekki á óvart að frumvarpið hafi verið samþykkt. Og ólíkt því sem gerðist í Noregi, þá er ekki greint frá því í ungversku lögunum hve lengi Orban verður heimilit að stjórna með þessum hætti.

Ákvörðunin hefur vakið mikla athygli, og ótta, enda er Orban umdeildur mjög. Frá því Orban tók við embætti árið 2010 hefur svokölluð valdboðsstefna aukist til muna í landinu, hann er yfirlýstur þjóðernissinni, þykir popúlískur mjög og fréttaskýrendur hafa gengið svo langt að kalla hann einræðisherra

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, gaf á þriðjudag út yfirlýsingu þar sem hún áréttar mikilvægi þess að hverjar þær neyðaraðgerðir sem ríkisstjórnir grípa til vegna faraldursins, séu tímabundnar og megi ekki vara um ófyrirséðan tíma. Hún nefndi Ungverjaland ekki sérstaklega, en af máli hennar má ráða að Orban og atburðir síðustu daga í ungverska þinginu eru henni ofarlega í huga.

Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, sagði svo á Twitter að Evrópusambandið verði að grípa til aðgerða gagnvart Unverjalandi og Orban og fá þá til að skipta um skoðun, ellegar reka Ungverjaland úr Evrópusambandinu.

Bolsonaro skipar fólki að mæta til vinnu

Einn af bestu vinum Orbans í pólitíkinni er forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, sem við ræddum hér áðan í tengslum við falsfréttir. Orban hefur lofað Bolsonaro í hástert, og hefur meðal annars sagt að bestu útgáfuna af kristnu lýðræði sem hann þekki, fyrirfinnait í Brasilíu

Bolsonaro hefur sem fyrr segir gert lítið úr heimsfaraldrinum, kallar hann vægt kvef og þótt greindum smitum fjölgi ort í landinu og dauðsföllum sömuleiðis, er Bolsonaro samur við sig. Í síðustu viku skipaði hann landsmönnum að sinna vinnu sinni.

Bolsonaro má þó eiga það að á þriðjudag kallaði hann faraldurinn eina stærstu áskorun okkar kynslóðar, en hann hefur engu að síður gert lítið úr honum. Hann hefur ekki skyldað fólk í sóttkví og heldur því statt og stöðugt fram að efnahagslegar afleiðingar þess að fólk sinni ekki vinnu sinni, séu mun alvarlegri en sjúkdómurinn og áhrif hans á heilsu fólks.

epa07613377 Brazilian President Jair Bolsonaro takes part in the signing of the National Policy of Regional Development Decree, in Brasilia, Brazil, 30 May 2019.  EPA-EFE/Joedson Alves
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. Mynd: EPA-EFE - EFE
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.

Margir af ríkisstjórum Brasilíu hafa skipað fólki að vera heima, á meðan forsetinn segir þeim að mæta í vinnu. Hverjum á að hlýða? spyr óupplýstur almenningur. Og til að flækja þessa stöðu enn frekar, þá náði enn ein undarleg falsfréttin flugi í landinu mitt í miðju þessa alls. Sú fjallaði um að bandaríska streymisveitan Netflix ætlaði að bjóða öllum Brasilíumönnum fría áskrift að Netflix á meðan kórónuveirufaraldurinn gengi yfir. Kættust margir þar syðra, en ekki Bolsonaro - þar sem hann vill að fólk mæti til vinnu.

Áður en við ljúkum yfirferð okkar um hvernig hinir ýmsu stjórnmálamenn bregast við útbreiðslu Covid19 frá hinu pólitíska sjónarhorni, þá er það þá er það í sjálfu sér áhugavert, hvort noktun streymisveitna hafi ekki aukist? 

Mikið álag á streymisveitur

Sjaldan ef nokkru sinni höfum við haft meiri tíma til að horfa á sjónvarpið. Þegar það litla sem eftir er af félagslífi okkar er orðið rafrænt og öllum mannfögnuðum hefur verið frestað um óákveðinn tíma er alveg eins gott að vera heima og horfa á Netflix.

Enda hefur álagið á streymisveituna verið þvílíkt að þar á bæ þurfti að minnka myndgæði á efninu innan Evrópu, svo öll gætu nú örugglega rifjað upp Friends eða gleymt sér yfir persónugalleríinu í Tiger King.

Við notum Spotify líka öðruvísi en áður. Hlustun á hlaðvörp um hugleiðslu og ræktun mannsandans hefur aukist mikið, sömuleiðis lagalistar sem eiga að virka hvetjandi við matseld og önnur heimilisstörf. Þeir eru ófáir lagalistarnir sem hafa verið settir saman í tilefni heimsfaraldurs og tilheyrandi heimavistar fyrir marga.

Og á þessum lagalistum hafa þónokkur eldri lög gengið í endurnýjun lífdaga. Þannig hefur streymi á þessu lagi hér aukist um ein 135% síðustu daga og vikur.

Þarna eru liðsmenn Police auðvitað að biðjast undan því að einhver standi nálægt sér. Fyrirtaks ráð þegar tveggja metra reglan skal nú alls staðar höfð í heiðri.

Önnur lög hafa sömuleiðis fengið meiri hlustun en oft áður, nú þegar ekki má snerta nokkurn hlut.

Og svo hlusta þau allra bjartsýnustu á þetta hér:

Duterte samur við sig

Ekki standa nálægt mér, ekki snerta þetta, heimsendir er í nánd; um þetta er sungið og um þetta er fólk að hugsa út um veröld víða. Og stjórnmálamenn líka, sem eru eins misjafnir og þeir eru margir. Á Filipseyjum hefur hinn litríki forseti Rodrigo Duterte, maðurinn sem hatar Ísland, skipað alræmdum öryggissveitum sínum að skjóta þá sem ekki virða reglur um ferða- og samkomubann í landinu. Öryggissveitir forsetans hafa hingað til verið notaðar til að myrða fíkniefnasala- og neytendur með köldu blóði á götum úti - eitthvað sem hefur hlotið harða gagnrýni Alþjóðasamfélagsins.

Um helmingur Filippseyinga er í sóttkví og geta því milljónir manna ekki sinnt vinnu sinni vegna faraldursins.

Lýðræðið stendur höllum fæti í Kambódíu

Litlu skárra er ástandið í Kambódíu. Á þriðjudag samþykkti ríkistjórn landsins neyðarlög, sem heimila afnám borgaralegra réttinda fólks, að dregið verði úr lýðræði og hömlur settar á fjölmiðla. Mannréttindavakt Sameinuðu þjóðanna kom þeim skilaboðum áleiðis til kamódískra stjórnvalda að draga skuli lögin til baka, samstundis. Á sama tíma segir Hun Sen, forsætisráðherra Kambódíu, lögin nauðsynleg til að takast á við Covid-19 og koma í veg fyrir útbreiðslu faraldursins.

Innan alþjóðasamfélagsins hringja viðvörunarbjöllur. Í þessum nýju lögum er nefnilega margt á reiki og þykja þau vægast sagt loðin, en þar er greint frá því að ríkistjórnin fái fullt vald á allri fjarskiptatækni, stjórn á fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Þá hefur ríkisstjórn fullt vald til frelsisskerðingar þegna sinna, og sjálfs þingsins.

Frá því kórónuveirufaraldurinn braust úr hefur Hun Sen neitað eða gert lítið úr þeim hættum sem hann gæti valdið í Kambódíu. Brad Adams, fulltrúi Mannréttindavaktar Sameinuðu þjóðanna í Asíu segir að Hun Sen virðist hins vegar reiðbúinn að stökkva á vagn valdboðssinna þegar tækifæri gefst, svo hann geti aukið og styrkt völd sín.

epa08335903 Cambodian soldiers carry medical supplies from a Chinese plane at the Phnom Penh International Airport in Phnom Penh, Cambodia, 01 April 2020. Chinese military donated medical supplies to fight the coronavirus outbreak in Cambodia, as health authorities confirmed 86 active cases of coronavirus in the country.  EPA-EFE/MAK REMISSA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínverski herinn kemur lækningavörum til Kambódíu.

Já, hlustendur góðir, okkar besta fólk, framlínan svokallaða, stjórnmálamennirnir sem hafa svo mikið að segja um vegferð okkar og heilsu á þessum viðsjárverðu tímum - bregðast við vágestinum hver á sinn hátt. Lúkasjenkó í Hvíta-Rússlandi og Berdimuhamedow í Túrkmenistan segja bara neinei, þetta er ekkert vandamál; Viktor Orban í Ungverjalandi og Hun Sen í Kambódíu segja, jú heyrðu þetta er alveg hreint svakalegt vandamál, svo mikið að það er best að enginn annar en við höfum nokkuð um það að segja hvaða ákvarðanir verða teknar næst. Duterte á Filippseyjum vill skjóta þá sem rjúfa sóttkví, og Bolsonaro í Brasilíu segir sínu fólki að hundskast í vinnuna.

Það er ljóst að heimurinn er breyttur, það höfum við lært síðasta mánuðinn. Og ekki aðeins á sviði stjórnmálanna, heldur einnig okkar daglega líf. Eins og við nefndum áðan eru streymisveitur orðnar okkar besti vinur, en aðrir þættir daglegs lífs, sem eitt sinn voru sjálfsagðir, eru það ekki lengur. Manstu eftir því hlustandi góður, hvenær þú tókst í höndina á einhverjum síðast?

Mynd með færslu
 Mynd: Flickr - Flazingo Photos (pd) - Flickr.com
Það er af sem áður var.

Heyra handaböndin sögunni til?

Eins og við komum aðeins inn á hér áðan horfum við meira á sjónvarpið en áður. Það er fínt að gleyma sér yfir áhorfi á þætti og bíómyndir sem gerast áður en allt breyttist. Þegar við máttum hittast, knúsast og heilsast.

Þarna fyrir neðan sjáum við af þéttingsfast handaband þeirra Topper Harley og Kent Gregory í grínmyndinni Hot Shots 1. Leiknir af þeim Charlie Sheen og Cary Elwes takast félagarnir svo vel og innilega í hendur að höndin á þeim síðarnefnda bráðnar. Það var ekki út af Covid 19, myndin er gerð árið 1991.

Nú vitum við ekki hvernig það er með þig, kæri hlustandi, en áhorf á handabönd, faðmlög og knús er skyndilega farið að vekja hjá mörgum undarlegar tilfinningar. Mörg eru svo fljót að aðlagast breyttum reglum að áhorf á fólk í sjónvarpsþáttum sem hlammar sér hlið við hlið í sófa, með í mesta lagi 2 millimetra á milli sín, eða fólk sem tekur þéttingsfast í höndina á næsta manni, eins og þeir í Hot Shots, vekur meiri viðbrögð en oft áður.

Sinn er siður í landi hverju, en fólk hefur verið að taka í spaðann hvort á öðru frá því löngu fyrir fæðingu Krists. Handabandið hefur oft verið tákn sameiningar, friðarumleitana, trausts og vináttu. Og Covid eða ekki, það er alltaf umtalsverð traustsyfirlýsing að taka í höndina á einhverjum. Þú veist aldrei hvað hann var síðast að gera með höndinni. En nú reynir ekki einu sinni á það, það má ekki taka í höndina á neinum.

Stærsta spurningin er líklega, hvenær við förum aftur að takast í hendur, hvenær við berum nógu mikið traust til hvors annars til að heilsast með þeim hætti eða jafnvel enn innlegri hætti. Tekur það okkur tíma að vinna upp það traust, eða verðum við orðin svo nándarþurfi að handabandið í Hot Shots verður daglegt brauð?

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV