Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Appelsínugul viðvörun: Aftakaveður um allt land

04.04.2020 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - vedur.is
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir allt landið vegna aftakaveðurs á morgun, að höfuðborgarsvæðinu undanskildu, en þar er gul viðvörun í gildi. Spáð er stormi, roki og stórhríð á öllu landinu. Meðalvindhraði verður á bilinu 20 til 28 metrar á sekúndu en mun hvassara verður í vindhviðum. Veðrið skellur á í kvöld og í nótt.

„Já helgin lítur mjög illa út í sambandi við veður. Ef við orðum það mjög stutt þá er allvíða vont veður í dag en hins vegar er víða mjög vont veður á morgun,“ segir Teitur Arason, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Verður mjög hvasst á landinu?

„Já það verður stormur eða rok um allt land og það verður líka snjókoma á öllu landinu. Snjókoman verður mest á Austurlandi, Austfjörðum og Norðurlandi eystra. En vindurinn verður hins vegar mestur á sunnan- og vestanverðu landinu.“

Rignir og hlýnar

Hvenær skellur þetta veður á?

„Það er þegar byrjað að hvessa. Eins og ég segi, vonda veðrið verður í dag og síðan kemur enn verra veður í framhaldinu. Það versnar í kvöld og nótt.“

Þannig að fólk á ekki bara að halda sig heima út af COVID-19 heldur út af veðrinu líka?

„Já það er tvöföld ástæða til þess að halda sig heima um helgina, það er bæði farsóttin og vont veður.“

Teitur segir að veðrið gangi að mestu niður seinni partinn á morgun. Þá fari að rigna og hlýna í veðri.

Fréttin hefur verið uppfærð.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV