Verður að fara varlega í að aflétta samkomubanni

03.04.2020 - 14:26
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fara verði varlega í að aflétta samkomubanni og takmörkunum á skólahaldi þegar þar að kemur. „Það er ljóst að það þarf að fara mjög hægt í þær aðgerðir til að viðhalda þeim árangri sem við munum væntanlega ná. En það skýrist þegar fram í sækir hvernig það verður gert.“ 75 þúsund eru farin að nota smitrakningaforrit sem varð aðgengilegt í gær.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra framlengdi samkomubann og takmarkanir á skólahaldi í dag til 4. maí. Það gerði hún að fenginni tillögu sóttvarnalæknis. Fram kom í tilkynningu ráðuneytisins að framundan væri vinna við að undirbúa afléttingu samkomubanns og annarra takmarkana í áföngum.

„Ég held að tilfinningalega eigi maður að vera undir það búinn að halda þetta út til 4. maí. Það væri mjög óvenjulegt ef við myndum ætla að létta á því fyrir þann tíma,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundinum. Hann kvaðst ekki eiga von á að samkomubanni yrði aflétt fyrr en eftir mánaðamót.

Hápunktur líklega í kringum 6. til 13. apríl

Alma Möller landlæknir vitnaði til nýs spálíkans um hvernig faraldurinn þróast. „Við reiknum með hápunkti svona í kringum 6. til 13. apríl og þá er gert ráð fyrir að 120 til 180 þurfi meðferð á spítala, allt að 60 til 90 í einu.“ Þá þurfi 26 til 40 að fara á gjörgæslu og þar af tíu til átján í einu samkvæmt spálíkaninu.

75 þúsund hafa sótt smitrakningarforrit

Smitrakningarforrit varð aðgengilegt í gærmorgun og gat fólk þá farið að hlaða því niður í síma sína. Nærri 50 þúsund hlóðu niður forritunum fyrir miðnætti í gær og nú eru 75 þúsund farnir að nota appið, sagði Alma. Hún sagði að það væri umfram vonir. Alma sagði að það væru smá hnökrar í Android útgáfunni sem birtust þegar fólk stækkaði letrið en það breytti engu um virknu forritsins og verið væri að lagfæra það. Hún þakkaði jafnframt þeim íslensku fyrirtækjum sem komu að hönnun forritsins og gerðu það ókeypis.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi