Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verðhrun skilar sér ekki að fullu til neytenda

03.04.2020 - 13:26
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hröð lækkun heimsmarkaðsverðs á eldsneyti hefur ekki skilað sér að fullu til íslenskra neytenda, að mati Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Félagið áætlar að álagning olíufélaganna sé 14 krónum hærri á hvern lítra í dag en hún var í janúar og febrúar.

Eldsneytisverð á heimsmarkaði hefur hrunið á undanförnum vikum frá því að kórónaveiran tók að breiðast út og Rússar og Sádi-Arabar náðu ekki samkomulagi um að draga úr framleiðslu. Hefur verð á olíutunnunni ekki verið lægra í tvo áratugi.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir að þessi lækkun hafi einungis skilað sér til hálfs hér á landi. Meðaltalslækkun íslensku félaganna sé um 18 krónur á hvern lítra en lækkunin, að teknu tilliti til gengisþróunar, ætti að vera talsvert meiri en það. „Þannig að við værum að sjá að meðalverðið gæti legið miklu nær þá 200 krónum. Algengt verð í dag á bensínlítra sem dæmi er í kringum 215 krónur.“

Fákeppni stýri verðinu

Segir Runólfur að álagning olíufélaganna á hvern lítra hafi hækkað um 14 krónur frá því sem var í janúar og febrúar. Þær skýringar hafi verið gefnar að félögin séu enn með eldri birgðir og að sala hafi minnkað. Runólfur vill hins vegar meina að þarna ráði fákeppni för.

„Þannig að ég held því miður að þetta umhverfi okkar hafi mest áhrif. Auðvitað er það bara sjálfsögð krafa neytenda að verðlækkun erlendis skili sér inn á markaði hér heima, á sama hátt verðum við að taka á okkur þegar verð hækkar. Og við vitum það að eldsneyti er stór þáttur í vísitölunni og hefur áhrif á verðlagningu og verðbólguþróun. Það er minni sala þannig að það er ákveðinn freistnivandi að halda fleiri krónum per lítra vegna þess að það seljast færri lítrar. En það auðvitað dregur úr trúverðugleika fyrirtækjanna og eru ekki góðir viðskiptahættir.“