Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Útlendingar nánast horfnir úr silungsveiðinni

03.04.2020 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Þrátt fyrir kulda og erfiðar aðstæður er ágæt silungsveiði hjá stangveiðimönnum á fyrstu dögum veiðitimabilsins. Útlendingar eru nánast horfnir úr silungsveiðinni og mikil óvissa ríkir um það hvort erlendir veiðimenn skila sér í laxveiði.  

Stangveiðin hófst fyrsta apríl eins og venjulega og veiðimenn voru mættir á bakkann við þær ár sem þá voru opnaðar. Aðstæður voru erfiðar, norðanátt og mjög kalt. Engu að síður var ágætis veiði eins og jafnan þessa fyrstu daga. Þannig fréttist meðal annars af veiði í Eyjafjarðará, Brunná og Litluá í Kelduhverfi, í Rangánum, Varmá og víar.

Hrun í bókunum útlendinga

En stangveiðifélög og leigutakar hafa fundið fyrir áhrifum kórónuveirunnar á bókanir í veiði. „Já, ég ætla nú að það verði talsverður samdráttur, já og bara hrun, hvað varðar útlendingana. En mér sýnist Íslendingarnir ætli að fara í sína veiði,“ segir Erlendur Steinar Friðriksson, fiskifræðingur og rekur Veiðitorgs.is.

Mynd með færslu
 Mynd: Veiðitorg
Eyþór og Ívar Rúnarssynir með 75 cm. urriða úr Eyjafjarðará 1. apríl

Auðvelt að virða tveggja metra regluna í stangveiði

Og hann segir vel hægt að stunda stangveiði í samkomubanni og virða tveggja metra regluna. „Þegar þú kaupir þer veiðileyfi, þá ertu með svo stórt svæði fyrir þig, að þú þarft eiginlega ekki að hafa áhyggjur af því að þú hittir nokkurn einasta mann.“ 

Rafrænar veiðibækur til að minnka smithættu 

Hins vegar séu menn hræddari við að fara í veiðihúsin þar sem meðal annars þurfi að skrá í veiðibækur. Því leggi veiðifélög nú áherslu á rafrænar bækur og til dæmis hafi Veiðitorg rekið rafræna veiðibók í mörg ár og að henni verði nú ókeypis aðgangur út árið. 

Almennt lítil smithætta í veiðihúsunum

Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum, segir þó hverfandi líkur á að menn smitist af næsta manni við það eitt að koma í veiðihúsin. Ekki þá nema þar hafi dvalið einsatklingur mjög veikur af Covid-19. Það sé sjálfsagt að þrífa vel áður en menn yfirgefa húsin og spritta helstu hluti sem menn hafi snert. Óþarfi sé hinsvegar að sótthreinsa veiðihúsin hátt og lágt eftir notkun.

Talsverð óvissa í laxveiðinni

En það er rúmur mánuður í að laxveiðin hefjist og Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, segir að þar ríki talsverð óvissa. Íslendingar muni örugglega mæta vel, en flestir erlendir laxveiðimenn komi í júlí og ágúst. Og það sé einfaldlega ekki komið í ljós hvort þeir mæti. Því þótt umhverfið við ána sé öruggt sé alls óvíst hvort veiðimenn treysti sér í ferðalög milli landa þótt langt verði liðið á sumar.