Svandís staðfestir lengra samkomubann

03.04.2020 - 12:47
Mynd með færslu
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.  Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur framlengt samkomubann og takmarkanir á skólahaldi til 4. maí, í samræmi við tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Samkomubannið tók gildi 16. mars og átti þá að gilda til 13. apríl. Vegna stöðunnar í baráttunni við COVID-19 faraldurinn þótti sóttvarnalækni ráðlegast að framlengja samkomubannið. Á vef heilbrigðisráðuneytisins segir að samkomubanni verði aflétt í áföngum þegar þar að kemur. Stefnt er að því að kynna þau áform fyrir lok apríl.

Í tilkynningu um framlengingu samkomubanns og takmarkana á skólahaldi segir að þótt vel hafi gengið að halda útbreiðslu smita í skefjum valdi það áhyggjum hve alvarlega veikum einstaklingum sem þurfa á gjörgæslu að halda hafi fjölgað hratt. Haft er eftir heilbrigðisráðherra að nú skipti öllu að fylgja fyrirmælum fagólks og koma í veg fyrir að álagið á heilbrigðiskerfið fari yfir þolmörkin.

Þær takmarkanir sem nú þegar eru í gildi á samkomum og skólahaldi verða framlengdar til 4. maí. Sama gildir um undanþágur sem hafa verið veittar. Undirbúin verður áætlun um hvernig best megi aflétta takmörkunum í áföngum og er stefnt að því að kynna þau áform fyrir lok þessa mánaðar.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi