Stormurinn nær yfir enn stærra svæði á morgun

03.04.2020 - 11:01
Ein á ferð fyrir utan aðalbyggingu Háskóla Íslands.
 Mynd: Háskóli Íslands
Veðurstofan hefur útvíkkað gula veðurviðvörun morgundagsins vegna Norðaustan hvassviðris eða storms. Í gær var búið að gefa út viðvörun fyrir Suðurland, Suðausturland og Miðhálendið en nú er búið að vara við veðrinu við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum. 

Viðvörunum tekur gildi klukkan 07 á Suðurlandi en þar er gert ráð fyrir austan 15-23 m/s og hviðum að 35 m/s undir Eyjafjöllum. Líkur á skafrenningi og því gæti skyggni orðið lítið og færð því farið versnandi.

Viðvörunin tekur svo gildi á Suðausturlandi klukkan 10. Þar er gert ráð fyrir norðaustan 18-25 m/s með hviðum að 40 m/s í Öræfum. Líkur á snjókomu eða skafrenningi og sums staðar lítið skyggni og versnandi akstursskilyrði. Klukkan 12 tekur viðvörunin svo gildi á miðhálendinu, en þar verður ekkert ferðaveður með norðaustanhríð, 18-25 m/s. 

Stormurinn færir sig svo vestar og klukkan 14 tekur gula viðvörunin gildi á Vestfjörðum þar sem gert er ráð fyrir Norðaustan 18-23 m/s og él. Klukkutíma síðar tekur viðvörunin gildi við Breiðafjörð þar sem búast má við svipuðum skilyrðum. Klukkan 17 er svo komið að Faxaflóa, en þar má einnig gera ráð fyrir hviðum að 35 m/s við fjöll.

Allar viðvaranir gilda til miðnættis annað kvöld.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi