Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir grímur gera lítið gagn fyrir almenning

03.04.2020 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að andlitsgrímur geri lítið sem ekkert gagn fyrir almenning sem sé á gangi úti við og geti veitt falskt öryggi. Hann sagði að grímur neti nýst á veika einstaklinga til að minnka líkur á að þeir dreifi veikinni. Þá sé gagnsemin klár, og einnig hjá heilbrigðisstarfsfólki. Öðru gegni um almenna notkun.

Þórólfur var spurður út í þetta á upplýsingafundi almannavarna og landlæknisembættisins í dag. „Að almenningur gangi með grímur er mjög vafasamt. Það er engin stofnun eða ábyrgur aðili sem mælir með því. Ég veit að í Bandaríkjunum hafa þeir verið að tala um þetta en ég alla vega set spurningamerki við þetta,“ svaraði Þórólfur.

Þórólfur var einnig spurður út í hanska, og meðal annars hvort að bómullarhanskar gætu nýst fólki sem er með ofnæmi fyrir latex-efni. Hann sagði að svo væri ekki.

Á fundinum var einnig spurt út í smithættu í verslunum, svo sem þegar fólk handleikur grænmeti og ávexti. Svarið var að ef smitaður einstaklingur sem ekki gætti að hreinlæti, svo sem handþvotti, handléki og skilaði vöru þá gæti það leitt til smithættu.