Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nostursamlegt Norðfjarðarpopp

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur R

Nostursamlegt Norðfjarðarpopp

03.04.2020 - 11:58

Höfundar

Sameinaðar sálir er þriðja sólóplata Guðmundar R. hvar hann flytur okkur einlægt alþýðupopp og stendur sig prýðilega og gott betur í þeirri deildinni.

Guðmundur R. Gíslason varð allþekktur á árum áður sem söngspíra Súellen. Árið 2007 gaf hann svo loks út sólóplötu, Íslensk tónlist, ásamt vini sínum Halla Reynis en plata þessi er tileinkuð honum (Halli féll sviplega frá í fyrra og varð hinum fremur þéttriðna íslenska tónlistarbransa mikill harmdauði). Árið 2017 kom svo platan Þúsund ár út, sem var unnin með Jóni Ólafssyni og Coney Island Babies, hljómsveit sem gerir út frá Norðfirðri, heimasvæði Guðmundar og er nokkurs konar saumaklúbbur hans og góðra félaga.

Guðmundur semur alla texta Sameinaðra sála og fimm lög. Jón Ólafsson tekur upp sem fyrr, semur þrjú lög, og margir aðrir leggja gjörva hönd á plóg. Bubbi Morthens syngur með Guðmundi í einu lagi t.d. og smellasmiðurinn Guðmundur Jónsson á eitt lag.

Síðasta plata var öðrum þræði hylling til níunda áratugarins, hljómlega séð, og mátti heyra skírskotanir í Echo and the Bunnymen, Simple Minds og þvíumlíkt, hetjur sem Guðmundur leit til þegar hann var að hefja ferilinn. Þessi plata er líka temabundin, en á hefðbundnari hátt. Umfjöllunarefnið er lagt upp sem dagur frá morgni til kvölds en er í raun heil ævi og þau verkefni sem fylgja því að fara í gegnum lífið. Fyrsta lagið heitir þannig „Dagur nýr“ og lokalagið „Kvöld er á enda“ en er í raun ævikvöld.

Þessar síðustu plötur tvær eru þó líkar um margt. Yfir þeim báðum er þekkilegur bragur, það er besta orðið til að lýsa þessu. Vinalegur og ærlegur andi liggur yfir og heiðarleiki Guðmundar, sérstaklega í textum, skín í gegn. Þar er á hann á svipuðum slóðum og síðast. Umfjöllunarefni taka oft á erfiðum málum; heimi fíkla, þunglyndi og geðveilu. Þessu skilar Guðmundur afskaplega vel frá sér. Sjá t.d. „Systir“ og „Eilífa nótt“. Um síðustu plötu sagði ég á þessum vettvangi: „Guðmundur syngur vel út plötuna, tónninn er bjartur, hreinn og einlægur en aldrei eins og í þeim lögum sem standa hjarta hans næst.“ Þetta á við um þessa plötu einnig. Í áðurnefndum lögum, þá bara trúir maður honum. Lögin verða eftir því áhrifarík (mjög flott hljóðmyndin líka í „Systir“, hvar vel valin áhrifshljóð undirstinga stemninguna). Guðmundur fer og inn á hugljúfari mið. Lagið „Perla“ er um móður besta vinar hans, mjög fallegt, og þar syngur Bubbi með honum. „Sameinaðar sálir“ er hugleiðing um anda sem unnast og „Á heimsenda“ er um heimahagana. Lagasmíðarnar sem slíkar eru velflestar með hefðbundnu, þriggja gripa popp/rokksniði og það kemur kafli þar sem maður hefði æskt eftir ögn meiri ævintýramennsku í þeirri deildinni.

Ég ræddi um þessi þekkilegheit í upphafi, og það er líka notaleg skandinavísk, jafnvel færeysk stemning í gangi (hámarkshrós). Allt í allt er þetta hrein og bein, alíslensk alþýðutónlist og Guðmundur stendur sig prýðilega og gott betur í þeirri deildinni.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Popptónlist

Einlæg og vonbjört

Popptónlist

Dramatískt og einlægt

Popptónlist

Einlægt og ágengt