Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mesti bókaþjófnaður í sögu Danmerkur ráðgáta í áratugi

Mynd: Pikrepo / Pikrepo

Mesti bókaþjófnaður í sögu Danmerkur ráðgáta í áratugi

03.04.2020 - 13:12

Höfundar

Á áttunda áratug síðustu aldar herjaði bíræfinn og stórtækur bókaþjófur á Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn. Á nokkrum árum tókst honum að hafa þaðan á fjórða þúsund fágætra fornrita, milljóna virði. Málið var ekki upplýst fyrr en áratugum síðar.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um þjófinn á Konunglega bókasafinu í Kaupmannahöfn. Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Gamla bygging Konunglega bókasafnsins á Slotshólma. Safnið flutti í „Svarta demantinn“ 1999.

Undir lok áttunda áratugarins uppgötvaðist að í hillur Konunglega bókasafnsins, þjóðarbókasafns Dana, vantaði grunsamlega mikið af bókum. Sérstaklega erlendum fornbókum og handritum. 

Grunsemdir vöknuðu um að þjófur gengi laus á safninu. Einhver sem kæmist inn í geymslur og önnur rými sem almennir gestir safnsins höfðu ekki aðgang að — og gæti síðan smyglað þýfinu út.

Þegar loks var ráðist í að fara yfir allan bókakost safnsins — um tvær milljónir rita — kom í ljós að vel á fjórða þúsund gamalla bóka og rita voru horfin. Rit metin samtals á margar milljónir danskra króna.

En vísbendingar um hver gæti hafa verið að verki voru af skornum skammti, og hvergi fannst tangur né tetur af stolnu bókum — ekki í fornbókabúðum eða hjá uppboðshúsum, né annarstaðar.

Mesti bókaþjófnaður í sögu Danmerkur, og þó víðar væri leitað, var því ráðgáta allt fram til ársins 2003. Þá barst Konunglega bókasafninu símtal frá uppboðshúsi í Lundúnum, fyrirspurn um ákveðið spænskt leikritasafn frá 1517. 

Í hönd fór þá lygileg atburðarás sem endaði með fjölþjóðlegri lögregluaðgerð — og lausn ráðgátunnar. En enn í dag eru ekki öll kurl komin til grafar.

Mynd með færslu
 Mynd: Det Kongl. Bibliotek
Stolnar bækur á kontórnum hjá Christie's í Lundúnum.

Árið 2003 var tíðindamikið í bókaþjófnaðarmálum á Norðurlöndunum. Sama ár komst upp um þjóf sem gengið hafði laus á sænska þjóðarbókasafninu, Konunglega bókasafninu í Stokkhómi. Þá sögu — sem er jafnvel enn dramatískari — má heyra hér, úr þættinum Leðurblökunni. 

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardagsmorgnum klukkan 18:10. Fyrri þætti má finna í spilaranum, á síðu þáttarins og í hlaðvarpi

Tengdar fréttir

Erlent

Hluti af ránsfeng bókasafnsþjófs fundinn