Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögregla fellir niður mál vegna ræktunar iðnaðarhamps

03.04.2020 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd: Iðnaðarhampur - Pálmi Einarsson
Lögregla hefur fellt niður mál gegn bændum í Berufirði sem ræktuðu iðnaðarhamp af kannabisætt. Stjórnvöld ætla að ryðja lagahindrunum úr vegi svo bændur geti framleitt verðmæti úr hampi, svo sem trefjaplötur og umhverfisvæna steypu. Lyfjastofnun telur alla hampræktun stangast á við lög og tilkynnti ræktunina til lögreglu.

Skyldur kannabis en ónothæfur sem fíkniefni

Eftir ábendingu Lyfjastofnunar fór lögreglan í Gautavík, tók sýni úr iðnaðarhampinum en ekkert af virka efninu THC greindist. Iðnaðarhampur er af kannabisætt en hann er ekki hæga að nýta sem fíkniefni. Lyfjastofnun túlkar lögin þó þannig að ræktun allra plantna sé bönnuð óháð THC-innihaldi.

Fengu leyfi fyrir innflutningi á fræjum

Í bréfi lögreglustjóra til bænda í Gautavík kemur fram að þeir höfðu leyfi Matvælastofnunar til að flytja inn 75 kíló af fræjum, tollstjóri afgreiddi sendinguna athugasemdalaust og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitti þeim 700 þúsund króna úrvinnslustyrk. Þá hafi félag sem annar bóndinn stóð að fengið þau svör frá Lyfjastofnun árið 2013 að fræ til að rækta iðnaðarhamp féllu ekki undir lög um ávana- og fíkniefni. Lögreglustjóri segir að í ljósi þessa séu samnæmisskilyrði ekki uppfyllt og ekki líklegt að málið leiði til sakfellingar. Það sé því látið niður falla.

Halda vöruþróun áfram

Oddný Anna Björnsdóttir, bóndi í Gautavík og matvæla- og landbúnaðarráðgjafi, segist halda ótrauð áfram að þróa vörur úr iðnaðarhampi. „Við höfum þegar búið til trefjaplötur úr iðnaðarhampinum sem við ræktuðum síðasta sumar og skorið út úr henni gjafavöru. Eins hampsteypu sem er eldþolin, svo hafa verið gerðar tilraunir með að búa til hampsalt og hampte. Þannig að það eru fjölmargir möguleikar til að vinna verðmætar vörur úr þessu hráefni.

Opna á ræktun með skilyrðum

Vegna afstöðu Lyfjastofnunar hefur ríkt óvissa um hvort frekari fræinnflutningur verði leyfður fyrir sumarið. Stjórnvöld gáfu hins vegar nýverið út að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið muni í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið gera ráðstafanir til að heimila með skilyrðum ræktun iðnaðarhamps til að auka verðmætasköpun í landbúnaði.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV