Í skoðun að umbuna heilbrigðisstarfsfólki vegna álags

03.04.2020 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Heilbrigðisráðherra segir lífsnauðsynlegt að ljúka samningum við hjúkrunarfræðinga. Til greina komi að greiða heilbrigðisstarfsmönnum í framlínunni í baráttunni gegn kórónuveirunni á heilbrigðisstofnunum sérstaka umbun.

„Það er lífsnauðsynlegt að ljúka samningum við hjúkrunarfræðinga,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. „Ef ekki núna þá hvenær? Það er í raun og veru óásættanlegt að þeir skuli ekki búa við gildan kjarasamning,“ segir hún.

Kjaradeila hjúkrunarfræðinga og ríkisins var rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun. Svandís hefur rætt við samninganefndirnar að undanförnu og hvatt til þess að fundnar verði leiðir til þess að ná samningum.  Hún segir mikilvægt fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi, eins og alls staðar, að hjúkrunarfræðingar séu sáttir við sín kjör.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði frá því á blaðamannafundi almannavarna í dag að hann hafi sent ráðherra bréf þar sem hann benti á hið mikla álag sem er á starfsfólki og lagði fram tillögur að umbun líkt og sum lönd hafi gert. Svandís segir slíkt ekki útilokað í núverandi kringumstæðum.

„Við vitum það að aðstæðurnar eru fordæmalausar og það getur verið að úrræðin séu það líka oft og ég held að þetta sé eitt af því sem við þurfum að horfa á sem möguleika til þess að bæta stöðuna og liðka fyrir þannig að það er eitt af því sem kemur vel til umfjöllunar,“ segir Svandís.

Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefndirnar á fund á mánudagsmorgun. Í samtali við fréttastofu segir hann að óformlegir fundir hafi verið síðustu daga og viðræður hafi þroskast þannig að hann telji nú tímabært að þær hittist með formlegum hætti. 

Fjármálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið tilkynntu nú síðdegis að vaktaálagsauki sem hjúkrunarfræðingar Landspítala misstu um síðustu  mánaðamót - verði tryggður til næstu mánaða. 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi