Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Í langri biðröð eftir lóðum og ketilbjöllum

03.04.2020 - 12:12
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Nicole De Khors - burst.shopify.com/Creative commo
Löng röð myndaðist fyrir framan og til hliðar við verslun Hreysti í Skeifunni í morgun þegar byrjað var að selja nýja sendingu af handlóðum og ketilbjöllum. Skortur hefur verið í landinu á ýmsum líkamsræktarvörum undanfarið eftir að fólk fór að koma sér upp aðstöðu heima við til að bregðast við COVID-19 faraldri og samkomubanni.

Viðmælendur fréttastofu um miðjan mánuðinn lýstu rokna sölu á hvers kyns búnaði til líkamsræktar. Fólk keypti allt frá jógamottum og léttum handlóðum upp í fullbúna líkamsræktaraðstöðu til að setja upp heima hjá sér, hvort sem er á stofugólfinu eða í bílskúrnum. Sumar verslanir seldu margra mánaða skammt á viku eða tveimur og margt seldist upp.

Forsvarsmenn Hreysti tilkynntu á Facebook-síðu sinni upp úr miðjum mars að handlóð og ketilbjöllur kæmu næst í búðina í byrjun apríl, og að ekki yrði tekið við pöntunum. Vörurnar komu í sölu í dag og var mikil aðsókn í tækin eins og sjá má á myndinni hér að neðan.