Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki allir á biðlistanum hafi þörf fyrir meðferð á Vogi

03.04.2020 - 18:24
epa07149788 A glass of wine sits on a table during a wine and spirits competition in Tbilisi, Georgia 07 November 2018 (issued 08 November 2018). Wine is one of the top Georgian export products.  EPA-EFE/ZURAB KURTSIKIDZE
 Mynd: EPA - RÚV
Í mars 2020 voru 530 einstaklingar á biðlista eftir innlögn á Vogi, af þeim voru 115 komnir með innlagnardag á næstu þremur vikum. Ráðherra telur að hægt væri að stytta biðlista verulega með faglegri aðgangsstýringu, því ekki allir á biðlistanum hafi raunverulega þörf fyrir meðferð á Vogi.

Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Sigurðar Páls Jónssonar.

Að minnsta kosti þriðjungur þeirra sem eru skráðir á biðlista eftir þjónustu á Vogi ákveða sjálfir að nýta ekki þjónustuna af ýmsum ástæðum. Segir í svarinu að ekki sé víst að allir sem skráðir eru á biðlista Vogs þurfi á innlagnarþjónustu að halda til að leysa neyslu - og fíknivanda, því í sumum tilfellum komi önnur vægari úrræði að sömu notum. Hægt væri að stytta biðlista með því að nýta önnur úrræði í meira mæli.

Þar segir einnig að hluti þeirra sem séu á biðlista eftir innlagnarþjónustu á Vogi hafi sjálfir skráð sig á hann, án undangengins faglegs mats á því hvort viðkomandi þurfi á innlagnarþjónustu að halda. Þessu vill ráðherra breyta. Til að hægt sé að taka vel ígrundaðar ákvarðanir á grundvelli biðlista þurfi að liggja fyrir faglegt mat um hvort allir á biðlistanum hafi raunverulega þörf fyrir þjónustuna. Þannig endurspegli hann í dag ekki endilega raunverulega þörf fyrir þjónustuna. Ráðherra segist leggja áherslu á að biðlistar sýni á markvissari hátt raunverulega þjónustuþörf. Þar eigi aðeins þeir að vera sem raunverulega þurfa á þjónustunni að halda og nýti sér hana.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV