Búið að afbóka 65% sumarbústaða – öðrum lokað alveg

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Búið er að afbóka 65% þeirra orlofshúsa sem eru í boði hjá BHM um páskana. Rafiðnaðarsambandið hefur lokað sínum orlofshúsum og afturkallað bókanir út apríl. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands óttast ekki mikið álag um páskana.

Bæði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hafa biðlað til fólks að ferðast innanhúss um páskana í stað þess að leggjast í ferðalög eða fara í bústað. Tilgangurinn er að minnka líkur á slysum sem myndu valda enn frekara álagi á heilbrigðiskerfið, auk þess sem mælst er til þess að fólk safnist ekki saman á landsvæði þar sem heilbrigðisþjónusta er af skornum skammti.

Einhver stéttarfélög hafa þegar brugðist við þessum tilmælum. Þannig hefur Rafiðnaðarsambandið ákveðið að loka öllum orlofshúsum frá 6. apríl til mánaðamóta. Þá hefur öll útleiga verið afturkölluð á tímabilinu.

Hjá BHM hefur ekki verið lokað, en Gissur Kolbeinsson, fjármála- og rekstrarstjóri, segir ekki útilokað að það verði gert. Hann segir að fjölmargar afbókanir hafi þegar borist. Af þeim 45 húsum sem eru í boði hjá BHM um páskana er búið að afbóka 29. Gissur vonar að þær tilslakanir sem gerðar hafi verið varðandi endurgreiðslur og afbókanir skili því að umferð um orlofshúsin minnki mikið á meðan þetta ástand varir.

„Hlýðum Víði“

Á Suðurlandi eru fjölmargir sumarbústaðir, og alla jafna eru margir þar á ferðinni um páskana. Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segist þó ekki hafa áhyggjur af auknu álagi þessa páskana.

„Í sjálfu sér ekki. Það er breytt landslag hjá okkur, við erum með færri ferðamenn og yfirvöld eru að biðla til landsmanna að vera heima. En það er oft gríðarlega mikið álag um páskana á bráðamóttökunni á Selfossi og við erum búin að skipuleggja aukna mönnun og við höldum því bara áfram þannig að við getum mætt auknu álagi ef til þess kemur. En að öðru leyti erum við ekki að auka mönnun eins og er,“ segir Díana.

En búist þið við mikilli umferð á Suðurlandi um páskana?

„Vonandi ekki. Það eru margir að leggja átakinu lið, að halda landsmönnum heima. Og mörg félagasamtök eru að draga bókanir til baka. Þannig að það er mikilvægt að við stöndum saman og hlýðum Víði og verðum heima. Þannig að ég á ekki von á því nei.“ 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi