Bandaríkjamenn hvattir til að bera grímu utandyra

03.04.2020 - 22:50
epa08339960 US President Donald J. Trump looks on during a coronavirus task force press briefing at the White House, Washington, DC, USA, 02 April 2020.  EPA-EFE/KEVIN DIETSCH / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Donald Trump forseti Bandaríkjanna greindi frá því í kvöld að bandarísk stjórnvöld mælist til þess að allir Bandaríkjamenn beri grímu fyrir vitunum þegar þeir fara út fyrir hússins dyr og hamla þannig útbreiðslu kórónuveirunnar.

Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld sagði Trump að Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, hvetji fólk til að nota til dæmis trefla og klúta til að skýla nefi og munni en láta heilbrigðisstarfsfólki eftir andlitsgrímur.  

Forsetinn segir að fólki sé í sjálfsvald sett hvort það fari eftir þessum ráðum. Sjálfur kjósi hann að sleppa því að hylja andlitið. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á stöðufundi almannavarna í dag að grímur geri sennilega lítið eða ekkert gagn fyrir almenning en geti veitt falskt öryggi.  

Í heiminum öllum hafa 57.474 látið lífið úr sjúkdómnum, samkvæmt tölum sem AFP fréttastofan tók saman og birti klukkan sjö í kvöld. 

Yfir ein milljón smit hafa verið skráð í 188 löndum og yfirráðasvæðum frá því í desember. Að minnsta kosti tvö hundruð þúsund þeirra hafa náð sér af sjúkdómnum, samkvæmt frétt AFP. Stuðst var við opinber gögn ríkja og upplýsingar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi