Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verkfall og sjálfræði Britney Spears

Mynd: EPA / EPA

Verkfall og sjálfræði Britney Spears

02.04.2020 - 10:03

Höfundar

12 ár eru liðin frá því að Britney Spears var svipt lögræði. Hún þykir ekki hæf til að taka grundvallarákvarðanir um eigið líf og fjárhag: hefur hvorki sjálfræði né fjárræði. Því hafa faðir hennar og lögfræðingur verið lögráðamenn hennar og tekið bæði stórar og smáar ákvarðanir fyrir hennar hönd.

Sumir aðdáendur telja að Britney sé einskonar fangi. Hún hefur þó ekki slegið slöku við á þeim tíma heldur unnið baki brotnu. Allt þar til fyrir rúmu ári síðan, þegar Britney fór í verkfall.

Um helgina voru 20 ár liðin frá því að Britney Spears gerði það aftur með útgáfu titillags sinnar annarrar plötu, „Oops… I did it again.” Myndbandið varð þá þegar goðsagnakennt og rauði, þröngi glanspleður gallinn sem Britney klæddist stillti sér á stall í poppmenningarsögunni við hlið hvíta gallans hans Elvis, ísbrauðforms-brjóstahaldara Madonnu og Billie Jean hatts Michael Jackson. Lagið inniheldur einnig lítinn leikþátt, þar sem tónlistin er lækkuð og Britney ræðir við ungan mann. Á íslensku hljómar hann svo:

Ungi maðurinn: „Britney, áður en þú ferð er svolítið sem ég vil gefa þér.”
Britney: „Hvað þetta er fallegt! En bíddu nú við, er þetta ekki...?”
Ungi maðurinn: „Jú, mikið rétt.”
Britney: „En ég hélt að gamla konan hefði kastað því í hafið undir lokin?”
Ungi maðurinn: „Sjáðu til elskan, ég fór þangað niður og sótti hann fyrir þig.”
Britney: „Aww, þar ómakaðirðu þig.”

Þessi Titanic-skotni leikþáttur er ekkert Shakespeare-stykki, og Helgi Hálfdánarson kom hvergi nærri þessari þýðingu. Textinn hljómar raunar álíka snubbóttur og brandarinn um brjóstahaldarann sem er í skápnum vinstra megin en hann sagði nýja sögu af Britney. Sögu sem var undirstrikuð í með niðurlagi viðlagsins: „I’m Not that innocent”

Ég er ekki það saklaus söng Britney og meinti þá kannski – svona markaðslega séð – að hún gæti leikið fleiri hlutverk í blautum draumum en bara óþekku skólastelpuna. En eins og við fjölluðum um í síðustu viku er Britney ekki lengur fyllilega á bandi þeirra markaðsafla sem vilja stjórna henni. Hún er ekki lengur það saklaus og kannski er hún kommúnisti.

Hvernig Britney fór á botninn

Í vikunni sem leið birti Britney mynd  á Instagram aðgangi sínum sem innihélt skilaboð um ástandið sem nú ríkir í samfélaginu. Myndin og skilaboðin voru frá Instagram ljóðskáldinu Mimi Zhu og innihéldu setninguna: „Við munum næra hvort annað, endurúthluta auðæfum, fara í verkfall.”

Og það hljómar kannski fáránlega. Afhverju ætti heimsfræg og forrík poppstjarna að vilja eitthvað slíkt? En sannleikurinn er sá að Britney hefur verið í einskonar verkfalli síðastliðið ár, eða - það vill allavega ákveðinn hópur aðdáenda hennar meina.

Milli 2006 og 2008 brotnaði Britney smám saman niður. Hún náðist á mynd að keyra með ungan son sinn í kjöltunni, hún skyldi við barnsföður sinn og missti forræði yfir börnunum sínum, hún missti frænku sína úr krabbameini og eyddi mismiklum tíma á hinum ýmsu meðferðarstofnunum. Hún rakaði á sér höfuðið. Árið 2008 var hún nauðungarvistuð á geðdeild og í kjölfarið var hún svipt sjálfræði. Faðir hennar, Jamie Spears og lögfræðingurinn Andrew Wallet gerðust lögráðamenn hennar.

Og hvað þýðir það? Það þýðir að þeir hafa yfirumsjón með allri samningagerð hennar, mega selja eigur hennar og mega takmarka við hverja hún á samskipti. Það þýðir að hún getur bókstaflega ekki keypt sér svo mikið sem skópar án þess að faðir hennar og lögfræðingur fái skýrslu um kaupin.

Þannig hefur staðan verið í 12 ár og mörgum aðdáendum sýnist það í meira lagi furðulegt. Innan þeirra raða hefur myndast hreyfing þeirra sem telur að Britney sé einskonar fangi föðurs síns, að hann notfæri sér fötlun hennar til að stjórna og græða á henni. Hreyfingin er kennd við myllumerkið #freeBritney eða frelsið Britney og svona miðað við aðrar samsæriskenningar á netinu hefur hún óvenju mikið til síns máls.

Það er nefnilega býsna óvenjulegt að ung heilbrigð manneskja á við Britney sé svipt sjálfræði í svo langan tíma. Britney er heilbrigð enda er ekki samasem-merki milli fötlunar og veikinda, veri fötlunin líkamlegs eða andlegs eðlis. Britney hefur sannlega þurft að leita sér geðhjálpar en þorrann úr þeim 12 árum sem liðin eru frá því hún var svipt sjálfræði hefur hún unnið baki brotnu. Hún gaf reglulega út nýja tónlist, leikið minni og stærri hlutverk  hinum ýmsu sjónvarpsþáttum og komið fram á 248 tónleikum í Las Vegas fyrir 500 þúsund dollara á kvöldið, samkvæmt Los Angeles Times. Ef hún er hæf til að vinna undir því gríðarlega álagi sem fylgir skemmtanaiðnaðinum, hvers vegna er hún þá ekki hæf til að taka grunnákvarðanir um eigið líf?

Mun Britney fá um frjálst höfuð strokið?

Í janúar 2019, hætti Britney við fyrirhugaða tónleikaröð í Vegas, að sögn sökum alvarlegra veikinda föðurs hennar. Fljótlega eftir það sagði lögfræðingur hennar  sig frá lögræðismálunum, þrátt fyrir þessi veikindi föðursins og þrátt fyrir nýlega og umtalsverða kauphækkun. Í opinberum gögnum sagði hann að Britney yrði fyrir gríðarlegu tjóni, óbætanlegum skaða og yrði í gríðarlegri hættu ef hann segði ekki af sér.

Þetta þykir grunsamlegt. Þegar stjórnendum hlaðvarpsins Britney Gram barst talhólfssending frá aðila sem kvaðst tengdur lögræðismálinu og sagði Britney sæta kúgunum varð allt brjálað á samfélagsmiðlum. Miley Cyrus æpti Free Britney á tónleikum, tugir mótmæltu fyrir utan ráðhúsið í Hollywood með skiltum og öllu. Á einu þeirra stóð „Britney is NOT a Slave 4 You”.

Seinna var faðir Britney sakaður um ofbeldi gegn sonum hennar. Í kjölfarið fengu synirnir nálgunarbann gegn afa sínum. Hann var leystur undan störfum sem lögráðamaður Spears í kjölfarið en þó aðeins í hennar persónulega lífi - hann hefur enn fjárræði fyrir hennar hönd. Umboðsmaður Britney segir óvíst að hún vilji nokkurn tíma vinna aftur. Hún ætti svo sannarlega ekki að þurfa þess, nægur er auðurinn, en enn er óvíst nákvæmlega afhverju Britney missti áhugann á vinnunni.

Kannski breytist eitthvað í þeim efnum í næsta mánuði. 30. apríl mun dómari í Los Angeles taka afstöðu til lögræðismála hennar. Kannski finnur hún Britney nýja forráðamenn, kannski heldur Jamie Spears fjárræði sínu. En kannski verður Britney loksins frjáls. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Svo mælti Missy Elliott