Ríkar ástæður fyrir því að fólk verði heima um páskana

02.04.2020 - 20:30
Mynd: RÚV / RÚV
Tekist hefur að stjórna kórónuveirufaraldrinum vel með hörðum aðgerðum hér á landi, en álagið á heilbrigðisstofnanir er mikið og það er full ástæða til þess að halda aðgerðum áfram. Þetta sagði Alma Möller landlæknir í Kastljósi í kvöld.

„Við vitum að toppnum er ekki náð. Við vitum að það er mikið álag á heilbrigðisstofnunum svo það er full ástæða til að halda aðgerðum áfram. Við megum ekki slaka á,“ sagði Alma. Hún sagði það í stöðugri endurskoðun hvort herða þyrfti aðgerðir, en það kæmi helst til álita ef upp koma klasar af sýkingum eins og gerst hefur úti á landi.

Almannavarnir hafa biðlað til fólks að halda sig heima um páskana og Alma segir helst að þrjár ástæður séu fyrir því: Það auki hættu á slysum þegar álag á gjörgæslum er þegar mikið, margir gætu verið saman komnir á sumarhúsabyggðum þar sem aðeins lítil heilsugæsla er í grenndinni og fólk gæti veikst snögglega, og að fólk sé oft komið í svo góða rútínu heima hjá sér að það gæti slakað of mikið á í öðrum aðstæðum.

Smitrakningarforritið nýtist til lengri tíma

Smitrakningarforrit, eða app, fyrir snjallsíma er nú komið út en með því á að vera hægt að rekja ferðir fólks saman við ferðir annarra. Alma ítrekar að Persónuvernd hafi gefið grænt ljós á útgáfuna og hún hefur fulla trú á því að almenningur taki vel í að sækja það í snjalltæki sín.

„Almenningur hefur sýnt mikla ábyrgð hingað til. Við erum öll almannavarnir og þetta er liður í því. Þetta app er ekki íþyngjandi og þeim mun fleiri sem nota þetta, þeim mun meira verður gagnið,“ sagði Alma.

Forritið mun hins vegar ekki aðeins nýtast núna, því þó faraldurinn sjálfur gangi yfir þá gæti veiran enn látið á sér kræla í samfélaginu. Þá mun forritið ekki síður nýtast til lengri tíma litið.

Mikilvægt að halda í húmorinn

Alma biðlaði í dag til heilbrigðisráðherra að afturkalla tekjuskerðingu hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Hún segir ekki gott að vera með stétt í kjaradeilu þegar við þurfum svona mikið á henni að halda. Þetta sé áhættuþáttur sem við hefðum alveg mátt vera án.

Alma var að lokum spurð hvernig hún bregst við álaginu.

„Auðvitað finnur maður fyrir álagi. Ég er svo heppin að hafa góða starfsorku. Ég vinn mikið en set svefninn í algjöran forgang, og næringu. En ég hef ekki getað hreyft mig eins og ég vildi,“ sagði Alma, sem benti einnig á mikilvægi húmors.

„Við erum með ákveðið grín dagsins á stöðufundum, græskulaust sem engan meiðir. Það er bara gaman að því,“ sagði Alma Möller landlæknir.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi