
Nemar í Háskóla Íslands aðstoða smitrakningarteymið
Hafa hringt mörg hundruð símtöl
Í upphafi síðustu viku óskaði smitrakningarteymið eftir aðstoð frá nemendum á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og nú hafa um hundrað nemendur á sviðinu veitt teyminu aðstoð sína og hringt mörg hundruð símtöl. Ein þeirra er Auður Kristjánsdóttir, meistaranemi í sjúkraþjálfun.
„Við erum sem sagt bara að hringja í fólk og athuga hvort það sé ekki meðvitað um að það eigi að vera í sóttkví og að kanna líðan fólks, hvort það hafi verið með einkenni og þá benda því á að láta heilsugæsluna eða 1700 vita,“ segir Auður.
Gott að geta hjálpað
Auður stundar nám sitt alla jafna í Reykjavík en fór norður til Akureyrar eftir að skólanum var lokað. Hún segir gott að geta litið upp úr bókum til að aðstoða.
„Ég var bara heima að vinna í lokaverkefninu mínu og fannst ég geta hjálpað til með þessu. Það hefur bara gengið vel, við fengum staðlað viðtal sem við höfum farið eftir og viðtölin eru auðvitað tekin í trúnaði og fólk hefur tekið mér vel, verið tilbúið að gefa þessar upplýsingar til þess að reyna að minka útbreiðslu veirunnar.“