Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Látum okkur streyma með Moses Hightower

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - Canon Mark 1D X

Látum okkur streyma með Moses Hightower

02.04.2020 - 11:29

Höfundar

Tónleikaröðin Látum okkur streyma heldur áfram í kvöld og nú er röðin komin að Moses Hightower. Tónleikaröðin er haldin af Hljómahöll og Rokksafni Íslands en eins og nafn tónleikanna gefur til kynna leikur hljómsveitin fyrir galtómu húsi en tónleikunum verður hins vegar streymt auk þess sem þeim verður útvarpað á Rás 2.

Tónleikaröðinni var hleypt af stokkunum síðastliðið fimmtudagskvöld og þá var það Ásgeir Trausti sem kom fram. Nú er röðin komin að Moses Hightower. Hljómsveitin sló í gegn með sinni fyrstu plötu, Búum til börn, sem kom út árið 2010 og hefur verið ein vinsælasta hljómsveit landsins allar götur síðan. Síðasta hljóðversplata Moses Hightower kom út árið 2017 og hét Fjallaloft en í fyrra kom út tónleikaplata frá sveitinni sem var vel tekið af aðdáendum, enda hefur hljómsveitin löngum verið þekkt fyrir að vera frábær á sviði. 

Það var einmitt hljómsveitin Moses Hightower sem átti hugmyndina að nafni tónleikaraðarinnar. „Það voru herramennirnir í Moses Hightower sem áttu hugmyndina að nafninu á dagskránni en ég hafði nefnt við þá þegar við vorum að skoða það að hafa streymistónleika með Moses Hightower að við værum ekki búin að komast í það að finna nafn á dagskrána og ef það kæmi eitthvað til þeirra í draumi mættu þeir láta mig vita. Þegar ég vaknaði daginn eftir biðu mín skilaboð í símanum; Látum okkur streyma. Þar með var það ákveðið,“ segir Tómas Young, framkvæmdarstjóri Hljómahallarinnar. 

Tónleikar Moses Hightower hefjast kl. 20 í kvöld og verður þeim streymt beint á RÚV.is sem og á Facebook-síðu Hljómahallarinnar. Tónleikunum verður einnig útvarpað beint á Rás 2. Þeir sem missa af tónleikunum kl. 20 þurfa þó ekki að örvænta því tónleikarnir verða einnig sýndir kl. 21:15 á RÚV 2. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Ásgeir Trausti í beinni frá Hljómahöllinni

Tónlist

Rafrænir tónleikar Ásgeirs Trausta í kvöld