Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Krafa um að aðgerðir stjórnvalda skili sér til neytenda

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Neytendasamtökin krefjast þess að stjórnvöld tryggi varnir neytenda í tengslum við aðgerðir sínar vegna kórónuveirunnar. Þá hvetja samtökin til þess að forráðamenn Strætó endurskoði þá ákvörðun að fækka ferðum almenningsvagna.

Stjórn Neytendasamtakanna fundaði í dag og sendi í kjölfarið frá sér tvær ályktanir. Annars vegar gera samtökin þá kröfu að aðgerðir stjórnvalda í þágu fyrirtækja gangi að fullu áfram til neytenda. Þau krefjast þess sérstaklega að tilslakanir stjórnvalda í garð banka og fjármálastofnana skili sér að fullu til viðskiptavina þeirra í formi þóknana- og vaxtalækkana, og eins að leigjendur fái að njóta tilslakana sem leigusalar kunna að fá. Samtökin hvetja stjórnvöld til að fylgjast sérstaklega með því og fylgja því hart eftir.

„Stjórn Neytendasamtakanna vilja sérstaklega vara við gamalkunnum óvildargestum, gengissigi og verðbólgu sem glittir í við sjónarrönd og hvetja stjórnvöld til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stugga við þeim,“ segir í ályktun samtakanna, þar sem því er velt upp hvort það verði skoðað hvort setja eigi þak á verðtryggingu. Neytendur eigi ekki einir að bera þungann af þeirri stöðu sem fram undan er.

Telja aðgerðir Strætó frekar auka smithættu en hitt

Þá hvetja samtökin Strætó BS til endurskoða ákvörðun sína um að fækka ferðum almenningsvagna. Hin skerta þjónusta Strætó komi hart niður á notendum, meðal annars þeim sem vinna samfélagslega mikilvæg störf og nýta sér almenningssamgöngur í og úr vinnu.

„Mætti leiða að því rökum að með fækkun ferða ferðist fleiri með hverjum vagni með aukinni smithættu, þvert á rök Strætó um aðgerðir vegna Covid-19. Aðgengi að góðum almenningssamgöngum eru afar mikilvægar og á meðan þess er ekki beinlínis krafist af heilbrigðisyfirvöldum er óþarfi að fækka þeim,“ segir í ályktun samtakanna.