„Eina sem maður getur gert er að stappa í þá stálinu“

02.04.2020 - 12:30
Mynd: RÚV / RÚV
„Ég veit hvernig þeim líður, ég tala við þá á hverjum degi,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson læknir sem stýrir COVID-19 göngudeild Landspítalans. Hann á vini í læknastétt um allan heim og segir marga þeirra vera að glíma við skelfilegt ástand. Hann er gestur í þættinum Okkar á milli í kvöld þar sem hann segir frá starfi sínu sem læknir á tímum kórónuveirufaraldurs en einnig frá ástríðu sinni fyrir mat því hann er þekktur sem læknirinn í eldhúsinu.

Greind kórónuveirusmit í heiminum nálgast milljón og segir Ragnar ástandið víða orðið afar slæmt enda hafi mörg lönd verið algjörlega óundirbúin fyrir faraldurinn. Hann er duglegur að vera í sambandi við vini sína og kollega erlendis og reynir hann að hughreysta þá við þessar erfiðu aðstæður. „Þau áttuðu sig ekki á því að þetta myndi gerast svona hratt. Maður ímyndaði sér alltaf að maður myndi hafa meiri tíma en svo bara segir lögmálið um lógaryþmískan vöxt annað.“

Hér á landi virðist honum hins vegar sem réttar aðgerðir hafi farið í gang á réttum tíma. „Ég vona það. Við virðumst allavega vera að anna deginum í dag.“ Þó sé ómögulegt að fullyrða um hvernig staðan verði eftir viku en Ragnar er tiltölulega bjartsýnn fyrir hönd Íslendinga. „Við erum að reikna með að við náum að manna það. En ég er ekki svo viss um að Bandaríkjamenn, Bretar og Svíar séu tilbúnir fyrir komandi daga eins og við.“ Og hann hefur sterkar taugar til Svíþjóðar enda var hann búsettur þar um hríð og viðurkennir hann að vera orðinn óttasleginn fyrir þeirra hönd. „Ég er pínu hræddur um að þeirra stragedía muni ekki verða heppileg,“ segir hann.

Heilt á litið telur hann Íslendinga tækla faraldurinn á skynsamlegan hátt. Um ástandið í Bandaríkjunum vill hann hins vegar sem minnst tjá sig að svo stöddu en útlitið segir hann ekki gott. „Maður sér hvernig ástandið er í New York og svo eru fleiri borgir að gjósa upp. Þeir búa við allt annað kerfi en við. En ég vona það besta bara fyrir þeirra hönd.“

Hann minnir á að enginn núlifandi manneskja hafi áður upplifað neitt líkt því ástandi sem ríkir í dag og því erfitt að fullyrða um stöðuna og þróun mála. „Það eru ótrúlega margir sem þykjast vita mjög mikið um þetta. En það er vert að geta þess að enginn okkar hefur glímt við heimsfaraldur áður. Það eru meira en hundrað ár síðan síðast geisaði slíkur. Það er enginn eftir til að spyrja.“

Rætt er við Ragnar Frey Ingvarsson í þættinum Okkar Á Milli er sem er á dagskrá á RÚV klukkan 22:20 í kvöld.

juliame's picture
Júlía Margrét Einarsdóttir
vefritstjórn
sigmarg's picture
Sigmar Guðmundsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi