Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bjarni segir frekari aðgerða þörf

Mynd með færslu
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.  Mynd: althingi.is - skjáskot
Krísan er bara að dragast á langinn og grípa þarf til enn frekari aðgerða sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. „Ég ætla bara að lýsa þeirri skoðun minni að þessar aðgerðir sem við höfum gripið til eru að öllum líkindum ekki nóg. Við munum þurfa að stíga stærra skref inn í þetta. Síðast í vikunni var verið að framlengja samkomubannið. Þannig að krísan er bara að dragast á langinn, lengur en við vonuðumst til að væri raunin.“

Telur smærri fyrirtæki þurfa styrki frekar en lán

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði spurningu fyrir ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum. Hann taldi að ríkistryggð brúarlán nýttust illa litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem þörfnuðust frekar styrkja en lána. „Ekkert bólar á slíku hjá þessari ríkisstjórn sem gleymir litlum og meðalstórum fyrirtækjum eins og oft áður.“ Ágúst sagði að enginn feluleikur mætti vera með brúarlánin sem njóta 70 prósenta ábyrgðar úr ríkissjóði. Það þyrfti að vera uppi á borðinu hvernig brúarlán væru veitt og hverjum. „Hér má ekki fela sig bak við bankaleynd. Eða stendur það til, minn kæri ráðherra.“

Ágúst Ólafur spurði fjármálaráðherra hvort að til stæði að gefa upp hvaða fyrirtæki fengju brúarlán og hvernig hann hygðist koma í veg fyrir að fyrirtæki sem fá brúarlán geti greitt sér lán í gegnum dótturfélög.

Þurfa að taka afstöðu til styrkja

Bjarni sagði að víða á Norðurlöndum hefði komið til framkvæmda hugmynd um beina styrki til fyrirtækja. Hann sagði að hér þyrfti fljótlega að taka afstöðu til þess hvort fara ætti þá leið hérlendis. Þetta ætti til dæmis við um leigumál fyrirtækja

„Ég held að við ættum frekar að hefja núna strax umræðu um það hvort að við munum undir einhverjum kringumstæðum ekki láta reyna á fulla innheimtu allra slíka lána. Ég held að það sé bara tímabært að ræða það strax.“ Hann spurði hvort menn ætluðu að ganga út frá því að allt yrði innheimt eða hvort ekki ætti að láta reyna á ríkisábyrgð fyrr en bankarnir væru búnir að draga fyrirtæki í þrot með innheimtu.

Heitir fullu gagnsæi

„Við munum sýna fullt gagnsæi gagnvart þinginu,“ sagði Bjarni og vísaði til eftirlitsnefndar sem á að fara yfir það hvernig úrræðum stjórnvalda er beitt. „Og já ég tel það koma vel til greina að það verði birtir listar yfir öll fyrirtæki sem hafa fengið fyrirgreiðslu. Það er ekkert stórmál fyrir mér. Það er bara sjálfsagður hlutur. Fullt gagnsæi.“

Ágúst Ólafur spurði hvað gerðist ef fjárhagslega stöndug fyrirtæki reyndu að nýta sér hlutastarfaleiðina þrátt fyrir að greiða út arð.

„Ég myndi persónulega fordæma þá sem enga ástæðu hafa, hafa ekki orðið fyrir tekjumissi en ætla að treysta á þessi úrræði, þeir eru að taka frá hinum sem eru í raunverulegri þörf. Það er svo einfalt,“ sagði Bjarni.